138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

þjónustusamningur við RÚV.

[15:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessum efnum. Um þjónustusamninginn sem gerður var af hálfu menntamálaráðuneytis við Ríkisútvarpið ohf. má segja að þarna sé stjórntæki enn í mótun eins og hefur raunar komið fram í umræðum um Ríkisútvarpið. Upphæðin sem nýtt hefur verið til kaupa á efni af sjálfstæðum framleiðendum hefur rokkað aðeins milli ára þannig að heildarviðmiðin teljast hafa náðst en það sem ágreiningur hefur staðið um er hins vegar það sem hv. þingmaður nefnir, það hvort 67 millj. kr. sem veitt er til að kaupa talsetningu á barnaefni, vissulega af sjálfstæðum framleiðendum, geti talist nýsköpun í innlendri dagskrárgerð.

Mitt mat er að svo sé ekki, en hins vegar þarf hugsanlega að skýra það betur innan þjónustusamningsins. Sú endurskoðun á samningnum stendur yfir í viðræðum við Ríkisútvarpið, þ.e. menntamálaráðuneytið fer núna yfir þjónustusamninginn og skilgreinir markmið sín betur og hvað megi betur fara í samningnum. Það hefur þegar verið fundað með stjórn Ríkisútvarpsins um þau markmið sem við viljum sjá fara þar inn. Þetta hefur líka verið rætt af þeirri sem hér stendur við menntamálanefnd þingsins og í framhaldinu munum við síðan funda með Ríkisútvarpinu til að skilgreina þetta betur.

Eins og ég sagði áðan er kannski erfitt að tala um bein brot á samningnum af beggja hálfu því að í þjónustusamningnum er líka kveðið á um vaxandi fjármagn af hálfu ríkisins til RÚV. Tekjustofn RÚV sem áætlaður er í útvarpsgjaldinu svokallaða — Ríkisútvarpið hefur fengið umtalsvert umfram heimtur af þeim skatti bæði á árinu 2009 og í fjárlögum ársins 2010 þar sem Ríkisútvarpið fékk u.þ.b. 3,5 milljarða kr. í fjárlögum ársins 2009 en einungis um 3 milljarðar kr. innheimtust (Forseti hringir.) og er áfram yfir þeim heimtum. Það þarf líka að skoða þennan þjónustusamning með tilliti til sjónarmiða beggja aðila í þessum efnum.