138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

þjónustusamningur við RÚV.

[15:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þykist vita að hvert og eitt okkar í þessum sal hafi sína skoðun á nákvæmri forgangsröðun niðurskurðar og útgjalda hjá Ríkisútvarpinu. Það er líka mikilvægt að minnast þess að Ríkisútvarpinu ohf. er ætlað að vera sjálfstæður fjölmiðill og því skiptir máli að við minnumst þess að við treystum stjórnendum þess til að fara með vald sitt til að forgangsraða skynsamlega. Það sem ég tel hins vegar mikilvægt við þá umræðu sem orðið hefur er að hin pólitíska hlið fari yfir þær áherslur sem hún vill sjá birtast í þjónustusamningnum sem er það stjórntæki sem hið pólitíska vald hefur og myndast í almannaþjónustu. Það held ég að sé mjög mikilvægt. Ég get til að mynda tekið undir með hv. þingmanni um að Ríkisútvarpið gæti vafalaust forgangsraðað betur t.d. í kaupum á efni af sjálfstæðum framleiðendum. Það liggur samt fyrir að helst viljum við líka sjá Ríkisútvarpið standa undir veglegri dagskrárgerð á eigin vegum og undir veglegri fréttaþjónustu þannig að þetta þarf auðvitað að fara yfir en við munum reyna að sýna áherslur okkar við endurskoðun þessa samnings sem ég nefndi áðan.