138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[15:55]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Sem íbúi á Álftanesi fagna ég þessari umræðu og þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram og hæstv. samgönguráðherra fyrir að vera með þetta hér í gangi. Sem íbúi á Álftanesi fagna ég því að vissu leyti að Álftanes er fyrsta sveitarfélagið sem þetta kemur í ljós með. Álftanes hefur ekki sérstöðu miðað við önnur skuldug sveitarfélög nema að því leytinu til að skuldirnar eru töluvert hærri. Engu að síður er vandinn af sama meiði eins og eftirlitsnefnd sveitarfélaga hefur sagt. Þetta gerir það að verkum að Álftnesingar sjálfir fá tækifæri í komandi sveitarstjórnarkosningum til að segja álit sitt á þeim sveitarstjórnarmönnum sem nú eru við völd. Er það vel. Ég legg mikla áherslu á það við hæstv. samgönguráðherra, og mun leggja fram fyrirspurn þar að lútandi, að fjárhagsstaða þeirra sveitarfélaga sem í vandræðum eru verði gerð kunnug íbúum þeirra tímanlega fyrir kosningar þannig að íbúar allra þeirra sveitarfélaga fái upplýsingar um hvað sveitarstjórnendur þeirra hafa verið að gera og í hvaða stöðu sveitarfélög þeirra eru.

Auknar álögur og niðurskurður eins og boðað er á Álftanesi er ekki þolanlegt fyrir íbúana nema í mjög skamman tíma. Þetta er einfaldlega of bratt farið og íbúar munu einfaldlega reyna eftir bestu getu að flytja í burtu ef svo fer fram sem horfir og ef þessar álögur verða látnar vara í meira en eitt ár. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga hefur lýst því yfir að vandi Álftnesinga, sem annarra sveitarfélaga, verði eingöngu leystur með yfirtöku skulda. Það er ágætt að samgönguráðuneytið fari þá strax í þá vinnu að vinna einhvers konar áætlun um framkvæmdina. Það er hvorki ásættanlegt fyrir íbúa á Álftanesi né annars staðar að þeir verði neyddir til sameiningar (Forseti hringir.) við annað sveitarfélag undir þeim ofurálögum sem yfir þeim grúfa og beinlínis neyddir til sameiningar, jafnvel þvert gegn vilja, vegna hótana um eitthvað annað verra.