138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[16:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að rekja hvernig skuldir urðu til á Álftanesi. Þær urðu ekki til í gær, fyrradag eða á síðasta ári. Þær hafa verið að hlaðast upp í langan tíma og margir komið þar að sem bera ábyrgð á því. Það sem hins vegar hefur gerst í hruninu, í skuldasprengingunni, hefur hent Álftanes ekki síður en önnur sveitarfélög. Vergar skuldir sveitarfélaganna í landinu árið 2007 voru 135 milljarðar en eru áætlaðar á þessu ári 210 milljarðar. Hreinar skuldir þegar tekið hefur verið tillit til skulda og eigna eru um 67,2 milljarðar. Þarna hvíla nokkrir milljarðar á sveitarfélaginu Álftanesi.

Ef við setjum þetta síðan í rétt samhengi hlutanna þá er verið að ræða núna að ýmsir útrásarfjárfestar séu að koma aftur inn í efnahagslífið, einn með 200 milljarða á bakinu og niður eftir öllum hryggnum. Það er verið að tala um að afskrifa tugi milljarða hjá þessum aðilum. Við skulum skoða skuldastöðu þessa litla samfélags í því ljósi líka til að gæta sanngirni. Það hafa engin stór afglöp verið framin á Álftanesi. Hins vegar hefur það hent Álftnesinga að vera hluti af íslensku samfélagi og efnahagskerfi sem hefur lent í hremmingum. Er hægt að bæta úr þessu? Já, það er hægt.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa lagt til að reglur í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði endurskoðaðar og tillit tekið til samsetningar samfélagsins. Það mundi gagnast Álftnesingum verulega. Það þarf að endurskoða reglurnar. Það þarf að horfa aftur í tímann og fram á við. Þetta er eitt úrlausnarefnið en síðan er það hitt: Það á ekki að nota þessar hremmingar til að berja Álftnesinga til hlýðni. Það á ekki að ráðast í (Forseti hringir.) neinar breytingar í fljótræði. Það á að tala við Álftnesinga á jafningjagrunni. Álftnesingar hafa sjálfir lagt til að það verði ráðist í endurskoðun á skipulagi á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) almennt en það á ekki að þvinga þá undir svipuhöggum inn í samstarf við tiltekin sveitarfélög (Forseti hringir.) án þess að ræða við þá beint.