138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[16:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum mjög alvarlega stöðu Sveitarfélagsins Álftaness og annarra sveitarfélaga. Ég vil taka aðeins annan pól í hæðina en margir aðrir og velta fyrir mér tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga til langs tíma. Ef við lítum nokkur ár aftur í tímann, þ.e. árin fyrir hrun, þá voru allt að 70% sveitarfélaga á landinu með neikvæðan rekstur. Það voru sveitarfélögin á landsbyggðinni sem voru ekki á þenslusvæðinu, ekki sveitarfélög eins og Reykjanesbær, Fjarðabyggð, Borgarbyggð og öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst Hafnarfjörður og kannski Álftanes, sem tóku þátt í þenslunni miklu, fóru í brask með lóðir og fengu inn verulega auknar tekjur. Hæstv. sveitarstjórnarráðherra sagði að árið 2007 hefði verið besta ár í hagsögu sveitarfélaganna. Það var vegna þessara plattekna sem menn fengu á lóðasölu sem hafa ekkert með rekstur sveitarfélaga að gera. Það hafði hins vegar mikið að gera með samkeppni milli sveitarfélaganna, ekki síst hérna á höfuðborgarsvæðinu og á vaxtarsvæðunum, að bjóða niður alls kyns þjónustu og gera reksturinn mjög óhagkvæman og óarðbæran. Sveitarfélögin á landsvísu hafa hins vegar setið við það í mjög langan tíma að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga er skökk og hún hefur ekkert breyst. Það þarf að skoða.

Við þurfum að velta því fyrir okkur hvað sé hægt að gera núna. Það er auðvitað augljóst mál að ríkisvaldið ber talsverða ábyrgð á því þótt ég ætli ekki að taka ábyrgðina af kjörnum fulltrúum í Sveitarfélaginu Álftanesi, sem hafa greinilega gengið lengra en allir aðrir í að bjóða of góða þjónustu fyrir of lítið af fjármunum. Það verður að spyrja hæstv. ráðherra núna hvað muni gerast á næstunni, hver stefna ráðuneytisins sé. Verður gripið til afskrifta eða þvingaðra sameininga? Íbúarnir geta ekki beðið. Þeir verða að fá svör. Einnig er nauðsynlegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki líka nauðsynlegt að gera heildarendurskoðun á tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga til þess að leiðrétta þá skekkju sem hefur verið í mjög langan tíma á heildartekjuskiptingu milli allra sveitarfélaga (Forseti hringir.) í landinu og ríkisins.