138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að hafa lagt þetta mál fram. Ég er með nokkrar spurningar. Mig langar að spyrja hvort eitthvað hafi verið rætt um hvort hugsanlega komi til greina að hafa frestinn lengri en þessa þrjá mánuði, þó að hæstv. ráðherra hafi aðeins imprað á því í ræðu sinni að menn gætu ekki ýtt hlutunum endalaust á undan sér. Ég hefði líka áhuga á að heyra nánar frá hæstv. ráðherra um þau úrræði sem er verið að ræða og hugsanlega koma fram eftir 2–3 vikur, hvað hún á við með því að þarna sé um að ræða betri úrræði fyrir skuldara.

Síðan hefði ég áhuga á því að heyra hvort hæstv. ráðherra hafi lesið frumvarp sem ég er 1. flutningsmaður að, um frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála vegna gengistryggðra lána. Hver er skoðun ráðherrans á ákvæði varðandi flýtimeðferð á þessari tegund mála?

Síðan varðandi nauðungarsöluna, er það ekki rétt skilið hjá mér að þetta frumvarp taki aðeins á lögheimilum einstaklinga en ekki öðrum eignum sem hugsanlega yrði gengið að vegna þessara tegunda lána og kaupleigusamninga?