138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar og hlakka til að heyra framhald þeirra. Ég vil hins vegar ítreka að eins og þetta frumvarp er orðað er fyrst og fremst talað um lögheimili fólks, fasteignir þar sem fólk heldur heimili og húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Hins vegar eru margir af þeim lánasamningum sem eru af þeirri tegund sem ég nefndi áðan tilgreindir í íslenskum krónum en miðast við dagsgengi erlendra gjaldmiðla eða svokallaða gengistryggingu. Þar erum við að tala um annars konar veð en fasteignir fólks. Sem dæmi má benda á að rúmlega 40.000 einstaklingar eru með svokallaða bílasamninga, þannig að það væri áhugavert ef ráðherrann hefði tíma í andsvari sínu til að greina frá því hvort hún hafi einhverja ákveðna skoðun á því hvort allsherjarnefnd gæti samræmt þetta í sinni vinnu.