138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Aftur þakka ég svar hæstv. ráðherra. Svarið segir mér í rauninni að ekki hafi verið unnið nægilega. Greinargerðin með frumvarpinu segir líka að ekki hafi verið unnið nægilega í að leysa vanda heimilanna í landinu og skoðanakannanir sem m.a. ASÍ gerði sýna að fólki finnst að ekki hafi verið unnið nægilega. Það er unnið of hægt í stjórnsýslunni. Menn gefa sér of langan tíma til að skipa í nefndir, sitja fundi og annað slíkt. Það er engin lausn fyrir menn að framlengja fresti og hlaða upp dráttarvöxtum þegar allt er í hers höndum. Menn eiga að taka á vandanum. Það er búið að ræða bæði um greiðsluaðlögun og skuldaaðlögun, menn eiga að vinna þær tillögur og læra af reynslunni, því sem hefur gerst, og reyna að bæta þær hugmyndir sem menn hafa til lausnar. Það þarf að leysa þennan vanda og menn þurfa að gera það fyrr en seinna.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra að taka á honum stóra sínum og hvetja stjórnsýsluna til dáða í því að vinna hratt og vel að því að koma með reglur sem nýtast þessu fólki þannig að hægt sé að ganga frá hlutunum en ekki fresta endalaust uppboðum og dæla út ógnvekjandi hótunarbréfum á borgara þessa lands.