138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:32]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að ítreka það sem ég sagði áðan. Við erum að vinna að því að skoða betur þessi úrræði og endurskoða þau að fenginni reynslu þannig að það er ekki hægt að saka okkur um að sitja aðgerðalaus í þeim efnum. Það erum við einmitt að gera t.d. hvað varðar greiðsluaðlögunina, að skoða hvort hægt sé gera það úrræði betur úr garði þannig að það gagnist fleirum. Það að saka okkur um að sitja og gera ekki neitt tel ég ekki vera alveg sannleikanum samkvæmt.