138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[17:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls fyrir ræður þeirra, því að ég hef verið svo hjartanlega sammála þeim sem hafa komið upp og talað um mikilvægi þess að stjórnvöld fari að gera meira fyrir heimilin. Ég tek líka undir þau orð sem hafa fallið í ræðustól þess efnis að það sem er verið að gera og það sem er verið að leggja til einmitt í þessu frumvarpi er náttúrlega engin lausn, þarna er verið að fresta vandanum.

Mig langar í ræðu minni að minnast á þrjár fréttir sem ég fann eftir mjög litla leit á vefsíðu Alþýðusambands Íslands. Þann 28. janúar er frétt með fyrirsögninni „Sérstök úrræði fyrir skuldsett heimili hjálpa fáum“, 1. febrúar „91% segja ríkisstjórnina þurfa að gera meira fyrir heimilin“, og 10. febrúar kemur miðstjórn ASÍ saman og ályktar um rétt fólksins, ekki rukkaranna. Með leyfi forseta, langar mig til að lesa þessa ályktun frá miðstjórn ASÍ:

„Miðstjórn ASÍ krefst nú þegar aðgerða af hálfu stjórnvalda til að bregðast við greiðsluvanda þeirra heimila sem verst standa. Ríkisstjórnin hefur haft heilt ár til að bregðast við fjárhagslegu hruni þúsunda heimila. Aðgerðirnar hafa verið í skötulíki. Bankar og fjármálastofnanir hafa verið fengnar til að útfæra björgunaraðgerðir, stofnanir sem hugsa fyrst og fremst um að lágmarka eigin skaða en ekki endilega um heill skuldarans. Þetta er aðferðafræði sem miðstjórn ASÍ hafnar. Stjórnvöld eiga að hafa kjark og þor til að setja heimilin í landinu í fyrsta sæti.

Frá yfirtöku ríkisins á bönkunum hefur milljörðum verið varið til skilanefnda bankanna sem hafa það hlutverk að lágmarka tjón og hámarka eignir. Heimili landsmanna eru í sömu stöðu og bankarnir hvað þetta varðar en samfélagslegt verðmæti þeirra og velferð fjölskyldnanna í landinu eru hins vegar ómetanlegir hagsmunir allrar íslensku þjóðarinnar. Því krefst miðstjórn ASÍ aðgerða fyrir heimilin strax.“

Ég held að við höfum líka öll heyrt auglýsingar sem ASÍ hefur staðið fyrir þar sem einmitt hefur verið kallað eftir þessum aðgerðum. Því verð ég að viðurkenna að ég stoppaði við þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. dómsmálaráðherra þar sem hún sagði að nú væri unnið að frekari úrræðum fyrir skuldara og þau yrðu væntanlega ekki tilbúin fyrr en eftir 2–3 vikur. Ég verð því að spyrja: Hvað hafa stjórnvöld verið að gera hingað til? Ég hefði talið að vinnan við það að auka rétt fólksins, eins og ASÍ kallar eftir, hefði átt að vera löngu, löngu byrjuð. Og ég verð að segja að þrátt fyrir að búið sé að skipa þverpólitíska nefnd hef ég alla vega frétt mjög lítið af því nákvæmlega sem er í gangi í þeirri nefnd, því miður. Það tók langan tíma að skipa eftirlitsnefnd með endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja og þegar maður spyr hverju þetta sæti, hver sé ástæðan fyrir þessu, virðist það jafnvel vera svo að ráðherrarnir hafi ekki verið vissir um hverjir ættu að bera ábyrgð á þeirri vinnu.

Nú er það svo að dómsmálaráðherra hefur farið með gjaldþrotalöggjöfina, og ég tel að það hafi verið mjög gott og jákvætt skref að samþykkt voru lög eða lagabreyting sem tekur á greiðsluaðlögun en það hefur alltaf legið fyrir að við setjum náttúrlega ekki heila þjóð eða þó að það væru ekki nema 20 eða 30% af þjóðinni í greiðsluaðlögun. Við förum ekki með stóran hluta af íslensku þjóðinni í gegnum gjaldþrotalöggjöfina, við verðum að vera með einhver önnur úrræði og það er náttúrlega ein af ástæðunum fyrir því að í greinargerð með því frumvarpi var talað um 100–200 manns. Það er eðlileg tala vegna þess að á hverju ári fyrir sig eigum við ekki að horfa á fleiri en nokkur hundruð einstaklinga fara í gegnum greiðsluaðlögun en það eru ekki eðlilegar aðstæður núna. Síðan kemur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og leggur fram frumvarp um greiðslujöfnun og það mál fer til félags- og tryggingamálanefndar eins og að það sé félagslegt úrræði en þetta er samfélagslegt vandamál. Hv. þm. Ólöf Nordal talaði einmitt um það í ræðu sinni að þetta sé efnahagslegt vandamál sem við þurfum öll að takast á við. Og þó að það hafi líka verið bent á að meiri hluti heimila eigi ekki í þessum vanda kom nýlega fram í könnun frá Neytendasamtökunum eða í rannsókn sem þau unnu að Seðlabankinn sé væntanlega að vanmeta vandann mjög mikið, þau tala um að allt að því þriðjungur heimila eigi í vandræðum eða stefni óðfluga í það að komast í mikla fjárhagslega örðugleika.

Rannsókn sem ASÍ gerði, sem ég vitnað í í fréttinni frá þeim, sýnir að 91% aðspurðra í skoðanakönnunum segja að ríkisstjórnin þurfi að gera meira. Hún sýnir líka fram á samdrátt í neyslu heimilanna, að þar er verið að bregðast við. Þetta er fólk sem samt sem áður hefur verið að nýta sér úrræðin sem þegar eru í boði, en nefnir síðan dæmi um það þegar það er spurt hvað það vilji sjá gerast nákvæmlega, eins og leiðréttingu eða lækkun á höfuðstól, aðgerðir til að koma til móts við fólk með síhækkandi húsnæðislán og 12% nefna afnám verðtryggingar. Það er því eiginlega nánast ósanngjarnt gagnvart hæstv. dómsmálaráðherra að hún þurfi að svara fyrir þetta vegna þess að þetta er efnahagsvandi, þetta er málefni sem fellur undir hæstv. forsætisráðherra, þetta er málefni sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ætti að takast á við og ríkisstjórnin í heild. Ég hef mjög miklar áhyggjur af þessu.

Ég reyndi að fá það fram í andsvari við hæstv. dómsmálaráðherra með því að spyrja einmitt um þessi úrræði: Hvað erum við að tala um? Hvaða lögum getum við breytt? Til hvaða aðgerða getur framkvæmdarvaldið gripið til að koma betur til móts við heimili í vanda? Eitt af því sem menn hafa sagt er að við verðum bara að horfast í augu við staðreyndir, að einhver hópur fólks verði gjaldþrota, að við getum ekki frestað því endalaust, það komi að því að ganga þurfi að eignum fólks. En þurfum við þá ekki að tryggja að þeir einstaklingar sem urðu fyrir þessum forsendubresti og gerðu ekkert annað af sér en að kaupa sér húsnæði, kaupa sér bíl og leyfðu sér jafnvel að kaupa flatskjá verði ekki hundeltir út yfir gröf og dauða, því að eins og núverandi lög um fyrningu á kröfum eru er mögulegt að halda kröfum lifandi þannig að hægt er að gera kröfur í dánarbú einstaklinga? Þetta er eitt af því sem þarf að taka á.

Talað hefur verið um hópmálsóknir, ég veit ekki hvað lengi, en einmitt í dag er ætlunin að ræða slíkt frumvarp sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er 1. flutningsmaður að. Það er nær samhljóða frumvarpi sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, var 1. flutningsmaður að á sínum tíma. Það er því ekki eins og það sé nýtt að verið sé að tala um mikilvægi þess að koma með löggjöf um hópmálsókn. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að ráðherrar hafa verið að vísa fólki á að eina leiðin til að það geti sótt rétt sinn sé einmitt að fara fyrir dómstóla og þá er náttúrlega mjög erfitt ef einstaklingar, sem eru jafnvel í miklum fjárhagslegum erfiðleikum, þurfa að fara að finna sér lögfræðing, þurfa að standa í því að leggja fram gögn og jafnvel mæta fyrir dóm út af þessum vanda. Það er margt sem ríkisstjórnin getur gert en því miður hefur það sem hún hefur verið að gera, að mínu mati, fyrst og fremst verið að fresta því að taka á vandanum og ýta honum á undan sér. Ég held að við séum ekkert ósammála þeim sem hafa tekið til máls um að þetta sé eitthvað sem þurfi að samþykkja en það þarf þá að liggja fyrir hver eru næstu skref og ég held að hæstv. dómsmálaráðherra sé sammála því. Það kom fram í orðum hennar að auka þurfi þrýsting á stjórnvöld til að fara að ákveða nákvæmlega hvað það er sem þau eru tilbúin að gera og hvað þau geta gert.