138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[17:16]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að viðurkenna að ýmislegt gott hafi verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar til hjálpar skuldugum heimilum þó að við getum verið sammála um að það hafi kannski ekki gagnast öllum hópum nægilega vel. Ég hygg að við séum þá sammála um þær aðgerðir sem verður að fara í en þá skiptir mjög miklu máli að kortleggja hvar vandinn liggur. Mér finnst oft í umræðum á þingi gleymast sú staðreynd að heilt efnahagskerfi hrundi. (Gripið fram í: Við vitum …) Sú staðreynd gleymist að heilt samfélag fór á hausinn og auðvitað þurfa einhverjir að borga fyrir það. Hverjir þurfa að borga fyrir það? Því miður held ég að við þurfum öll að borga fyrir það, því miður vil ég leyfa mér að segja.

Að níu af hverjum tíu telji að ekki sé nægjanlega langt gengið í úrræðum kemur mér ekki sérstaklega á óvart þegar fólk horfir framan í það að ráðstöfunartekjur hafa minnkað, skattar hækkað og öll aðföng heimilanna hækkað. Það er orðið miklu dýrara að reka heimili. Auðvitað vilja flestir við þær aðstæður að stjórnvöld komi inn með einhverjar töfralausnir. En því miður, hv. þingmaður, er ég ansi hrædd um að þær töfralausnir séu ekki til, ella væru stjórnvöld væntanlega búin að grípa til þeirra. Við þurfum að átta okkur á því hvar vandinn liggur, hvaða hópar það eru sem eru að detta milli skips og bryggju í þessu máli. Við þurfum að grípa til aðgerða fyrir þá hópa og við verðum að gera það fyrr en síðar.

Þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem við ræðum hér er liður í því að gefa fólki möguleika á að vinna úr sínum málum á næstunni til að því gefist ráðrúm til að fara yfir þau úrræði sem nú eru í gangi af hálfu stjórnvalda. Ég endurtek það sem ég held að ég hafi sagt í þrí- eða fjórgang, ég tel fulla ástæðu til að við förum enn einn snúning á þessu máli og náum einhverri niðurstöðu um úrræði sem gagnast þá þeim hópum sem þessi úrræði gagnast ekki í dag.