138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[17:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir virðist einmitt telja það ágætiseinkunn að einhver segi að það sé skárra en ekki neitt sem ríkisstjórnin hafi gert. Það sem ég tel að hafi verið helsti vandi stjórnarinnar, og þá Samfylkingarinnar mundi ég segja, er að viðurkenna vandann. Menn hafa farið fram með einhvers konar klisjur eins og um velferðarbrúna og að þeir ætli að byggja einhverja skjaldborg utan um heimilin en hafa samt neitað að horfast í augu við hve gífurlegur vandi það er sem við erum að fást við. Núna kemur t.d. könnun um að þriðjungur heimila á Íslandi standi frammi fyrir gífurlegum vanda.

Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir fyrstu endurskoðun eru tölurnar sem maður les þar mjög sláandi, vandinn er mjög stór. Þess vegna finnst mér það koma úr hörðustu átt þegar hv. þingmaður fer að tala um að hér hafi orðið hrun og menn verði að gera sér grein fyrir því. Mín tilfinning hefur einmitt verið að menn hafi algjörlega hunsað hve gífurlegur vandi það er sem við erum að fást við. Það gengur ekki að fresta hlutunum og ýta þeim á undan sér. Þegar við framsóknarmenn komum fram með efnahagstillögur okkar á sínum tíma vorum við annars vegar að tala um leiðréttingu á skuldum sem efnahagsaðgerð — þá vorum við að tala um 20%, að það yrði til að koma efnahagslífinu aftur af stað — og síðan þyrfti að grípa til sértækra aðgerða gagnvart þeim sem 20% mundu ekki duga fyrir. Eitt af því sem ég hef átt í miklum erfiðleikum með að skilja er hvernig stendur á því að ríkisstjórnin hefur ekki verið tilbúin til að takast á við vanda þeirra sem eru með gengislánin. Menn hafa vísað þeim málum aftur og aftur á dómstóla. Það er eins og menn eigi að leysa allt saman fyrir dómstólum og ef ekki þar eigum við að treysta á bankana (Forseti hringir.) sem eru þær stofnanir sem í mörgum tilvikum komu fólki í þann vanda sem það er í í dag.