138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[17:24]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel það vera hlutverk nefndarmanna að senda skýrsluna til þingflokka sinna og mun hvetja þá til að gera það. Ég tek undir með þeim sem hafa fagnað þessari frestun sem á að gera á nauðungarsölu. Það er líka eitt af þeim atriðum sem kemur fram í skýrslu þverpólitísku nefndarinnar.

Ég er jafnframt sammála þeim sem tala um að það gangi allt of hægt að finna varanlegar lausnir á skuldavanda heimilanna og hef miklar áhyggjur af því að við séum að hægja á atvinnulífinu vegna þess að okkur skortir að vissu leyti kjark til að taka á þessum vanda. Ég hef sjálf ekki verið mjög fylgjandi því að halda áfram að fresta nauðungarsölunni því að ég vil þrýsta á okkur stjórnmálamenn að fara nú að taka ákvörðun um hvernig við ætlum að taka á vandanum, sérstaklega þeirra sem ekki geta staðið undir 80% skuldahlutfalli, þ.e. skuldum sem nema 80% af markaðsvirði, og líka á skuldavanda þeirra sem eru kannski ekki svo illa settir hvað varðar skuldahlutfallið, heldur eiga erfitt með að standa undir greiðslubyrðinni. Það er þá millistéttin í landinu. Hvað ætlum við að gera fyrir hana?