138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[17:28]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Það er svo sem kannski ekki meiru við akkúrat þetta mál að bæta sem er til umræðu hér, þ.e. frestun nauðungarsölu. Það sem ég vildi koma inn á í ræðu í staðinn fyrir andsvar er það sem við erum að gera á vettvangi dómsmála- og mannréttindaráðuneytis. Þegar hrunið varð var löggjöf okkar ekki því viðbúin. Lög um greiðsluaðlögun voru sett í fyrravor og þá var jafnframt frestað nauðungarsölum. Um haustið voru svo sett lög, nr. 107/2009, sem voru um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Núna erum við á þeim tímapunkti að við sjáum mörg hundruð eignir sem bíða nauðungarsölu og samkvæmt okkar upplýsingum, sem eru reyndar mjög ófullkomnar, bendir ekki mikið til þess að margar hafi verið afturkallaðar. Það er einmitt það sem er áhyggjuefni vegna þess að fresturinn er ætlaður til þess að hægt sé að leysa málin og sölurnar verði afturkallaðar í einhverjum mæli þótt það eigi ekki við um þær allar.

Það sem ég vildi segja var að þau úrræði sem við erum að skoða núna til að bæta stöðu lánþega lúta í fyrsta lagi að greiðsluaðlögun. Nú ætla ég aðeins að segja hvað það felur í sér. Við erum að huga að því hvernig unnt er að styrkja stöðu einstaklingsins í þessu greiðsluaðlögunarferli, gefa einstaklingnum aukin vopn í hendur í gegnum bætta réttarstöðu í gegnum lög. Það sem við erum líka að huga að er hvort það þurfi ekki aukna aðkomu opinberra aðila til að rétta einstaklingum hjálparhönd í stöðunni. Frumvarp þessa efnis er í smíðum og það stendur ekki á mér að senda bæði stjórnarþingflokkum og stjórnarandstöðuþingflokkum drög að því frumvarpi þegar þau liggja fyrir sem verður vonandi innan skamms. Það er það sem við erum að gera varðandi greiðsluaðlögunina.

Hvað varðar hópmálsókn hefur oft verið talað um að það þurfi að koma henni á. Ég tel að það sé brýnt og gott að mál þess efnis sé fyrir þinginu. Það þarf nefnilega að auka hér neytendavernd og það getur vel verið að hún verði ekki aukin mikið til baka þegar við lítum á undanfarin ár en við getum þó a.m.k. litið fram og aukið hana. Það er partur af lengra vinnuplani hjá okkur. Það sem við erum líka að skoða hvað varðar nauðungarsöluna, að styrkja stöðu gerðarþola þar, er að endurskoða ákvæði varðandi uppgjör við kröfuhafa að lokinni sölu á eign.

Þá ræðum við líka hvort unnt sé að takmarka hversu mikils innheimtukostnaðar er hægt að krefjast við nauðungarsölu og auk þess erum við að skoða fyrningarfrest við gjaldþrot. Ég býst við að margt af því sem við erum að skoða nú þegar sé líka að finna í þeirri skýrslu sem nefnd var áðan. Það er gott að leggja saman kraftana og alveg nauðsynlegt, en við erum auðvitað að tala um að það er verið að skoða ýmis úrræði á vettvangi dómsmálaráðuneytisins til að styrkja réttarstöðu lánþeganna í þessu ferli öllu saman og það tel ég í rauninni alveg bráðnauðsynlegt.