138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[17:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Helga Hjörvar er þetta í þriðja sinn sem málið er lagt fram. Það var tekið til umræðu í hv. allsherjarnefnd síðasta sumar, þ.e. það var sent til umsagnar og nokkrar umsagnir bárust.

Ég tel brýnt að hv. allsherjarnefnd fari rækilega yfir þetta mál. Það er margt í málinu sem horfir mjög til bóta vegna þess að það er rétt sem kemur fram hjá hv. málshefjanda að það tekur langan tíma að leysa úr þeim álitaefnum við þær aðstæður sem hér eru uppi og eftir það hrun sem hér hefur orðið, ekki síst vegna þeirra félagaflækna sem við höfum horft upp á undanfarin missiri. Það tekur tíma að leysa úr þeim. Það þarf auðvitað að gæta þess að þau bú sem um er að tefla tapi ekki að óþörfu vegna fyrninga.

Varðandi þetta mál áskil ég mér rétt til að fara rækilega yfir það í hv. allsherjarnefnd, ekki síst ef litið er til ákveðinna réttarfarslegra þátta í málinu sem snúa að því hvort um afturvirkni er að ræða í einhverjum tilvikum, hvernig þetta horfir við varðandi þau bú sem þegar hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, hvort gengið sé of langt þegar litið er til réttarfarsreglna. Það er enginn vafi á því að þegar um er að ræða bú sem ekki hafa verið tekin inn í slíka meðferð er enginn vandi að lengja fyrningarfrest, sé til þess vilji. En það kallar á ákveðnar spurningar varðandi afturvirkni laga. Í mínum huga er mjög nauðsynlegt að fara algerlega með réttum hætti að því efni. Ef það er ekki gert held ég að við stígum þar skref sem gæti valdið vandræðum í dómstólum á síðari stigum, ef menn (Forseti hringir.) færu síðan að gera athugasemdir við þetta.