138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar undirtektir en í tengslum við sjónarmið um afturvirkni held ég að um leið þurfum við að hafa í huga að við settum á Alþingi m.a. sérstök neyðarlög sem auðvitað undirstrika það einstaka ástand sem hér hefur skapast í efnahagslífi og viðskiptalífi þjóðarinnar, einmitt á því málasviði sem hér er undir. Eitt af þeim gríðarlega mikilvægu verkefnum sem við stöndum frammi fyrir til að tryggja almannaheill og halda uppi viðskiptasiðferði í landinu er að tryggja það að þó að þessar sérstöku aðstæður hafi skapast og þó að hér verði væntanlega þúsundir þrotabúa til meðferðar, sem er miklu meira en nokkurn tíma er hægt að ætlast til með góðu móti að komist í gegnum kerfi okkar innan eðlilegra fyrri tímamarka, þá lengjum við þau tímamörk og það séu fullkomlega málefnaleg sjónarmið.