138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

197. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þeir tímafrestir sem settir eru fram í frumvarpinu eru tillaga til þingsins um fjögur ár. Ég tel fullkomlega koma til greina af hálfu nefndarinnar að hafa það heldur fimm ár ef hún telur það réttara eða sex ár. Ég hygg að hinn upphaflegi frestur, tvö ár, sé nokkuð í líkingu við það sem var þegar lögin voru sett í nágrannalöndum okkar en sá tímafrestur sem við erum að leita að núna miðast auðvitað við aðstæður okkar í kjölfar efnahagshruns þar sem lítið og vanburðugt kerfi fer að mörgu leyti með gjaldþrot alþjóðastórfyrirtækja sem ég held að eigi sér engan samjöfnuð í nágrannaríkjum okkar. Hér er hið opinbera kerfi að fást við skipti á fyrirtækjum sem í mörgum tilfellum eru miklu stærri en ríkisvaldið sjálft og það eru meira að segja aðstæður sem hvergi annars staðar eru og hljóta að kalla á alveg sérstaka tímafresti eðli málsins samkvæmt. En ég held að almennt um tímafrestinn í venjulegu árferði sé það rétt hjá hv. þingmanni að best fari á því að hann sé sá hinn sami og í nágrannalöndum okkar og sjálfsagt að afla nánari upplýsinga um það.