138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála.

392. mál
[18:20]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem við erum með til umfjöllunar tekur til frestunar á nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála vegna gengistryggðra lána.

Nýverið hafa fallið tveir mismunandi dómar um lögmæti gengistryggðra lána í héraðsdómi og því er afar brýnt að úrskurðað verði um lögmæti erlendra lána í Hæstarétti, bæði bílafjármögnunarlána og húsnæðislána, sem allra fyrst þannig að réttaróvissunni verði eytt. Líkt og kom fram í ávarpi hv. þm. Eyglóar Harðardóttur eru annars vegar rúmlega 40.000 manns með bifreiðar sínar fjármagnaðar með þessum hætti, sem eru u.þ.b. 115 milljarða ísl. kr. Hins vegar eftir því sem næst verður komist eru rúmlega 6.000 einstaklingar með erlend íbúðalán upp á 107 milljarða kr. þannig að vandinn er mjög umfangsmikill. Fjöldi þeirra einstaklinga sem er í þessari stöðu er hátt í 50.000.

Það er því annars vegar lagt til í þessu frumvarpi að sett verði inn bráðabirgðaákvæði um flýtimeðferð í lög um meðferð einkamála sem tekur til þeirra sem tóku lán eða gerðu kaupleigusamning sem tilgreindur er í íslenskum krónum en miðast við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Hins vegar er lagt til að nauðungarsölum vegna fyrrgreindra lána og kaupleigusamninga verði frestað sjálfkrafa til 31. desember á þessu ári í ljósi þeirrar réttaróvissu sem skapast hefur um erlend lán í ljósi nýfallins dóms um lögmæti fyrrgreindra lána.

Ljóst er að gengistryggðir lánasamningar geta verið ólíkir eftir lánveitendum og því er ekki augljóst með fordæmisgildi dómanna. Því er afar mikilvægt að nauðungarsölum verði frestað og að þessi mál fái flýtimeðferð í dómskerfinu eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu sem nú liggur fyrir.