138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála.

392. mál
[18:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér um ræðir, 1. flutningsmaður þess er hv. þm. Eygló Harðardóttir, er þess eðlis að það borgar sig ekki að lengja umræðuna um það mikið, heldur koma því til nefndar sem allra fyrst. Ég mun ekki hafa mörg orð um þetta mál heldur leggja áherslu á að nefndin vandi vinnu sína eins og ég veit að hún mun gera, og reyni að hraða málinu. Þetta er eitt af fjölmörgum málum sem þingmenn hafa komið fram með eða rætt sín á milli sem lúta að því að bæta hag og vernda þá sem skulda í íslensku samfélagi.

Það hefur verið lögð mikil áhersla á að halda utan um þá sem eiga fjármuni eða einhverjar eignir og er það að sjálfsögðu ágætt. En það verður að taka miklu meira tillit til þeirra sem skulda og er þetta liður í því, þ.e. að veita þeim einstaklingum sem eru með skuldir af þessu tagi ákveðið svigrúm, ekki síst á meðan réttaróvissa ríkir.

Það er nokkuð góð sátt hér á þingi um að ná fram bótum fyrir skuldara. Því er mikilvægt að við tökum nú höndum saman og reynum að koma einhverju af þeim fjölmörgu málum sem lögð hafa verið hér fram, í gegnum þingið þannig að staða þessa fólks batni til muna.

Við verðum að fara að spýta í lófana til að koma góðum málum eins hinu ágæta frumvarpi sem kallað er „lyklafrumvarpið“, sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir er 1. flutningsmaður að, og mörgum öðrum í framkvæmd.