138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Verklagsreglur bankanna hafa verið til umræðu á vettvangi viðskiptanefndar og vil ég því vekja máls á nokkrum umhugsunarefnum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson.

Nýlega var kynnt hugtakið „orðsporsáhætta“ á vettvangi viðskiptanefndar en það er hugtak sem gengur út á að við skuldameðferð fyrirtækja eigi stjórnendur bankanna að líta til áhættumats sem grundvallast af því orðspori sem fyrirtækin taka með sér inn í endurskipulagninguna. Bankinn á sem sagt að taka tillit til orðspors þeirra sem taka við fyrirtækjunum þegar hann metur fjárhagslegan ávinning af því að viðkomandi taki við fyrirtæki að nýju. Á nefndarfundinum var einnig kynnt minnisblað frá Almenna lífeyrissjóðnum en þar segir m.a. að leiki á því rökstuddur grunur að stjórnendur fyrirtækis hafi brotið lög eða ekki gætt jafnræðis meðal kröfuhafa muni sjóðurinn skoða hvort betra sé að fara í lögfræðilega innheimtu eða að krefjast gjaldþrotaskipta.

Stjórn Kennarasambands Íslands hefur einnig ályktað um þetta mál en fulltrúi þess er í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Stjórn KÍ hvetur stjórnir lífeyrissjóða til að fjárfesta ekki í fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir stjórn aðila sem áður hafa valdið sjóðunum alvarlegu fjárhagslegu tjóni. Í Morgunblaðinu í morgun er svo vitnað í formann sambandsins sem segir:

„Það er lítilsvirðing við lífeyrisþega í landinu ef menn ætla að fara beint inn á sömu brautina aftur og treysta sömu mönnum fyrir fjöregginu.“

Mitt mat er það að þessi tvö sjónarmið, annars vegar orðsporsáhættan og hins vegar þetta viðmót lífeyrissjóðanna, sýni vel að það sjónarmið bankanna um að endurheimtur verði betri með því að vinna áfram með umdeildum fyrri eigendum standist ekki þegar betur er að gáð. Fólki mun ekki líða vel með að eiga viðskipti við fyrirtæki í eigu þessara manna og lífeyrissjóðirnir eru ekki spenntir fyrir því að afhenda þeim mönnum sem töpuðu miklum fjármunum lífeyrissjóðanna fyrirtækin á nýjan leik. Fyrr munu þeir keyra fyrirtækin í þrot. Það er því mikið álitaefni hvort röksemdir bankanna um að endurheimtur verði betri með því að vinna með umdeildum útrásarvíkingum haldi vatni þegar allar hliðar málsins eru kannaðar og þar með er helsta röksemd bankanna horfin.