138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það hefði verið mér að sársaukalausu þótt hv. þm. Gunnar Bragi hefði komið hér fyrst. Ég veit að hann hefur margt mikilvægt og gott til málanna að leggja.

Ég vildi taka upp ákveðið mál sem snýr að skuldavanda heimilanna. Tíminn líður og vandinn eykst dag frá degi, ekki bara vandi heimilanna heldur vandi hagkerfisins því að ef heimilin eru komin í slík vandræði, sem allt stefnir í, þýðir það um leið að eftirspurn í hagkerfinu eftir vöru og þjónustu keyrist niður, það mun auka atvinnuleysið og við förum inn í vítahring sem mjög erfitt verður að stöðva. Þess vegna er alveg gríðarlega mikilvægt að ríkisstjórnin grípi strax til aðgerða til að hjálpa til varðandi skuldavanda heimilanna. Það er ekki hægt að bíða eftir því.

Ég verð að segja, frú forseti, vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú situr komst til valda undir slagorðinu „Skjaldborg um heimilin“, að það skýtur nokkuð skökku við að sjá síðan frétt um að innheimtufyrirtækin hafi staðið frammi fyrir því að hækka laun starfsmanna sinna. Þeir hafi leitað til ríkisstjórnarinnar um hvort það væri þá bara ekki í lagi úr því að launin voru hækkuð að hækka kostnað við innheimtuaðgerðir á fjölskyldurnar í landinu.

Ég sé ekki eftir launahækkunum til starfsmanna innheimtufyrirtækja en þegar svo stór hluti þjóðarinnar er orðinn að skuldafólki, oft og tíðum ekki vegna eigin aðgerða heldur vegna þess að það varð efnahagshrun, er ekki í lagi að heimila að innheimtukostnaður sé hækkaður. Og að láta það síðan fylgja, frú forseti, að það sé í lagi, þetta sé ekki svo mikil hækkun, 4–10%, að það eigi ekki að valda skuldurunum erfiðleikum, sýnir að mínu mati skilningsleysi á stöðu þess fólks sem á við fjárhagslega örðugleika að etja.

Frú forseti. Það er kominn tími til að þessi ríkisstjórn standi við stóru orðin sem féllu í kosningabaráttunni um að reisa skjaldborg um heimilin (Forseti hringir.) og hætta að leyfa því að ganga fram að skuldirnar vaxi og vaxi en bregðist við kröfum frá innheimtufyrirtækjunum um að hægt sé að hækka álögurnar á fólki. Það er alveg ótrúlegt, herra forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)