138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Verklagsreglur bankanna komu hér til umræðu áðan og ég vil geta þess að viðskiptanefnd hefur átt mjög gott samstarf við fulltrúa fjármálafyrirtækja um gerð þeirra. Markmiðið með þessu samstarfi er að tryggja að verklagsreglurnar taki mið af sjónarmiðum eins og um jafnræði lántakenda, sanngirni í meðferð skulda og samkeppni. Viðskiptanefnd tókst að fá fjármálafyrirtækin til þess að gera strangari kröfur varðandi áframhaldandi þátttöku eiganda og stjórnenda fyrirtækis og um opið söluferli.

Ákafi nefndarmanna í að koma til móts við kröfur í samfélaginu um að fjárglæframenn eignist ekki aftur fyrirtæki sín var svo mikill að fjármálafyrirtækin mættu á fund viðskiptanefndar með lögfræðing og siðfræðing til þess að sannfæra nefndina um að ekki væri hægt að ganga lengra.

Frú forseti. Við erum mörg þeirrar skoðunar að ekki sé nóg að leggja mat á orðspor eigenda heldur þurfi að ganga lengra. Ég hef því hvatt fjármálafyrirtækin til að skoða hvort ekki sé hægt að taka upp ákvæði sem er að finna í lögum um hlutafélög. Þetta ákvæði segir að stofnandi fyrirtækis megi hvorki hafa farið fram á eða vera í greiðslustöðvun né bú hans vera undir gjaldþrotaskiptum. Það er von mín að fjármálafyrirtækin verði við þessari kröfu og að hún muni þá útiloka eigendur sem nú standa í greiðslustöðvun eða gjaldþrotaskiptum frá áframhaldandi rekstri.

Ég vil að lokum geta þess að slíkar verklagsreglur munu ekki leysa vanda allra, það vantar enn þá úrræði fyrir láglaunahópa og einyrkja.