138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Varðandi þær umræður sem hér hafa skapast um áhuga Færeyinga á aðild að EFTA er auðvitað alveg ljóst að Færeyingar og óskir þeirra um samskipti og stöðu innan EFTA eiga fullan stuðning Íslendinga og þverpólitískan stuðning á Alþingi. Framganga Færeyinga hefur verið með þeim hætti að við stöndum í ævarandi þakkarskuld við þá, ekki bara framganga þeirra nú heldur oft fyrr á árum einnig.

Vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um verklagsreglur bankanna við endurskipulagningu fyrirtækjanna vildi ég í öðru lagi fá að nota þetta tækifæri til að hvetja hv. viðskiptanefnd í hennar ágætu vinnu í því að skerpa á þeim verklagsreglum sem þar hafa verið í vinnslu. Það er með öllu óþolandi ýmislegt sem uppi hefur verið við endurskipulagningu fyrirtækja í hinum endurreistu bönkum. Það er mjög mikilvægt að um það séu skýr og afdráttarlaus skilaboð af hálfu þingsins hvað menn telja viðunandi í þeim efnum og hvað ekki. Margt í því verður hins vegar ávallt matskennt og þess vegna er langsamlega farsælast að sem allra mest af sölu fyrirtækja og fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra sé opið og þannig að allir eigi kost á því að koma þar að og verða eigendur hinna endurreistu fyrirtækja á algjörum jafnræðisgrundvelli. Þá þarf ekki að flokka menn í dilka eða leggja umdeilanlegt mat á þá. Þá gilda einfaldlega ein lög í landinu fyrir alla og menn keppa á sanngjörnum samkeppnisgrundvelli (Forseti hringir.) en þeir lokuðu samningar sem við höfum séð eru auðvitað ófærir.