138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hvað varðar verklagsreglur bankanna eiga að sjálfsögðu sömu reglur að gilda fyrir alla. Það er líka þess vegna mín skoðun að ríkisstjórn og þingmenn eigi ekki að skipta sér af einstaka málum eins og hefur verið hvatt til. Þess vegna tel ég mikilvægt að Samtök fjármálafyrirtækja klári vinnu sína um almennar verklagsreglur. Við getum hins vegar veitt aðhald í gegnum umræðu hér og almennt í þjóðfélaginu en ég vildi í dag vekja athygli á að grunnnálgun bankanna virðist ekki halda þegar grannt er skoðað. Almenningur getur greitt atkvæði með fótunum hvað snertir orðsporsáhættu og lífeyrissjóðirnir virðast ekki hafa áhuga á að afhenda sömu mönnum og töpuðu miklum fjármunum fyrirtækin á nýjan leik. Að mínu mati er mikilvægt að við látum almenning í þessu landi njóta vafans.

Það er mikilvægur liður í endurreisn viðskiptalífsins að um hana ríki sátt og að sátt ríki um það hverjir fái aðgang að lykilfyrirtækjum okkar. Þess vegna er mikilvægt að söluferli þeirra verði fyrir opnum tjöldum. Slík sátt vegur þungt á metunum, ekki síst þeim fjárhagslegu þegar grannt er skoðað.