138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

[14:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Á Wikileaks er að finna skjal sem lekið var í síðustu viku. Í þessu skjali er að finna skýrslu bandaríska sendifulltrúans um samskipti hans við íslenska erindreka í tengslum við Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Eru þessar frásagnir um margt makalausar og sýna skilningsleysi íslenskra yfirvalda á hlutverki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í hinu stóra samhengi. Að biðja Bandaríkjamenn um stuðning við að AGS verði ekki notaður sem handrukkari fyrir Breta og Hollendinga á óopinberan hátt er bernskt. Ég held að það sé skilvirkara að hafa þessi samskipti opinber og afhjúpa hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið notaður til að kúga okkur til hlýðni.

Ég fagna því samt og það er ánægjulegt að þessi leki hafi orðið til þess að hæstv. utanríkisráðherra hafi nú með formlegum hætti óskað eftir fundi með hæstv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mig langar til þess að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvaða önnur lönd af þeim 186 sem eiga hlutaaðild að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur hæstv. utanríkisráðherra beðið með sambærilegum hætti um stuðning á opinberum vettvangi? Telur hæstv. utanríkisráðherra það nægilegt að ræða með erindrekum sínum við sendiherra um víðan völl á óopinberan hátt sem síðan skilar sér í svona skýrslum sem við höfum orðið vitni að? Er ekki gagnlegra að gera þetta á opinberan hátt eins og er svo ánægjulegt að hæstv. utanríkisráðherra er að fara að gera gagnvart Bandaríkjamönnum? Væri ekki tímabært að gera það með fleiri þjóðum?