138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

[14:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Hér blasir við enn eitt dæmið um það hversu illa hefur verið haldið á Icesave-málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Staðan er þessi, eins og við vitum öll: Bretar og Hollendingar hafa mánuðum saman haldið áætlun okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í gíslingu og þannig komið í veg fyrir að stjórn sjóðsins sinni hlutverki sínu og valdið því að Norðurlöndin hafa ekki treyst sér til að lána Íslandi svo styrkja megi gjaldeyrisforðann. Þetta höfum við vitað um langt skeið.

Bandaríkjastjórn er lykillinn, stór aðili í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þrátt fyrir þessi augljósu atriði er það fyrst núna í síðustu viku eftir að minnisblaðið umrædda lak á Wikileaks sem íslensk stjórnvöld hrökkva í gírinn og biðja um fund með bandarískum ráðamönnum. Er það virkilega svo? Hæstv. utanríkisráðherra svaraði ekki þeirri spurningu hv. þm. Bjarna Benediktssonar og ég bið hann um að gera það í sinni seinni ræðu.

Þar áður, eða undir miðjan janúar, voru þessir furðufundir íslenskra erindreka að því er virðist eina viðleitni stjórnvalda til að sækja liðsinni til þess stóra lands, Bandaríkjanna, í þeirri viðleitni að sækja gegn Bretum og Hollendingum í stjórn AGS. Hvað er það sem rekur hæstv. utanríkisráðherra af stað? Skyldi það vera málstaður Íslands, sá góði og sterki málstaður sem við ættum að vera að berjast fyrir? Nei. Þá held ég að menn hefðu nefnilega farið dálítið fyrr af stað.

Það sem vakti hæstv. utanríkisráðherra af dvalanum var þetta minnisblað sem lak, synjun forsetans á Icesave-lögunum og óttinn við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hann staðfesti það hér áðan. Það er þetta sem blasir við þingi og þjóð (Forseti hringir.) þegar frásögn bandaríska sendifulltrúans er lesin. Það er einungis hræðsla (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar við þjóðaratkvæðagreiðslu sem rekur hann af stað. Þetta er með ólíkindum.