138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

[14:24]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrir það fyrsta er einhliða rituð frásögn af fundi á ábyrgð þess sem hana ritar og það vita væntanlega allir í þessum sal. Kallað er eftir liðsinni Bandaríkjanna. Hv. þingmenn og kannski sérstaklega þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu kannski að velta fyrir sér hvers vegna Bandaríki Norður-Ameríku hafa ekki haft sendiherra á Íslandi í tæpt ár. Er það kannski vegna þess að þeir hafa ekki lengur nein not fyrir okkur og hafa engan áhuga á Íslandi, þessi stóri lykill að lausn Icesave-deilunnar ef marka má hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur?

Svo segir formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, að það sé undarleg taktík að reyna að stilla Bandaríkjunum upp við vegg. Hann er búinn að gleyma því þegar formaður Sjálfstæðisflokksins gerði það nokkrum dögum fyrir kosningar 2003 — án þess reyndar að segja nokkrum frá því, hvorki þingi né þjóð — en það kom allt á daginn síðar það sumar. Það var „brinkmanship“ svo maður sletti eins og formaður Framsóknarflokksins gerir iðulega í þessari pontu. (Gripið fram í: Iðulega? …) Það var taktík sem dugði þá, frú forseti, það var taktík sem dugði vel þá, eða hvað?

Síðan segja formenn stjórnarandstöðuflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, annar segir, og það var væntanlega formaður Sjálfstæðisflokksins, að málstað Íslands sé ekki haldið á lofti. Formaður Framsóknarflokksins segir, með leyfi forseta: „Þó var talað máli Íslands.“

Það lesa ekki allir þessa ritgerð sendifulltrúans eins á Wikileaks, að því er mér sýnist.

Það er ekki gott að átta sig á afstöðu stjórnarandstöðunnar eða formanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á þessu máli yfir höfuð og þó kannski síst á formanni Framsóknarflokksins sem hefur undanfarna níu mánuði, eða þá 12 mánuði sem hann hefur gegnt því embætti, sérhæft sig í því sem íslenskur stjórnmálamaður að mála skrattann á vegginn (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og sérhæft sig í þeim málflutningi sem hann sakar núna aðra um að fara fram með gagnvart öðrum löndum.