138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

[14:31]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Það er oft á tíðum einkennileg umræða sem þarf að fara fram í sölum Alþingis. Þetta er umræða sem er með þeim einkennilegri, fundur í bandaríska sendiráðinu.

Mig langar að byrja á því að tæpa á framgöngu sendiherrans sjálfs, Hjálmars W. Hannessonar, sem ég tel að sé einfaldlega hneykslanleg, svo vægt sé til orða tekið, og ætti að sjálfsögðu að kalla hann heim. Hann hefur samkvæmt þessari fundargerð lýst forseta Íslands, eina manninum sem hefur á opinberum vettvangi haldið fram málstað Íslands í Icesave-málinu svo um munar, sem óútreiknanlegum, þ.e. að hann sé í rauninni á einhvern hátt klikkaður. Svona orð setja bandarískir stjórnarerindrekar ekki í fundargerðir nema að vel athuguðu máli. Ég þekki sjálfur til í bandarískri stjórnsýslu og það skilur himinn og haf á milli bandarískrar stjórnsýslu og þeirrar íslensku, eins og ég hef orðið vitni að í gegnum áratugina. Það er því fyllsta ástæða til þess að taka mark á stórum hluta þessarar fundargerðar.

Afsökunarbeiðni frá þessum sendiherra, Hjálmari W. Hannessyni, til forsetans og þjóðarinnar er sjálfsögð.

Að öðru leyti langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvers vegna hefur utanríkisráðuneytið ekki komið á framfæri við erlenda fjölmiðla tilboði Íslands í Icesave-málinu frá því í síðustu viku? Það tilboð er mjög sanngjarnt og gefur Íslandi yfirburðastöðu í umræðunni. Hér á landi er kosið að halda málinu leyndu á meðan Hollendingar og Bretar leka í fjölmiðla ákveðnum setningum úr sínum tilboðum, sem láta Ísland að sjálfsögðu líta illa út í alþjóðlegu samhengi. Tilboð Íslands er feikilega gott og sanngjarnt en það fær enginn að vita af því. Hvernig stendur á því að utanríkisráðuneytið beitir sér ekki meira með þeim hætti á alþjóðavettvangi að halda uppi málstað Íslands opinberlega í stað svona (Forseti hringir.) hneykslanlegra funda eins og við höfum orðið vitni að?