138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[14:50]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir kynninguna á þessu máli sem ég tel afar mikilvægt. Í gegnum tíðina hefur verið þó nokkur gagnrýni á það með hvaða hætti hefur verið staðið að skipun dómara, sérstaklega hæstaréttardómara, þannig að ég fagna því að þetta mál sé komið fram. Þegar maður les greinargerðina í gegn sést að hún er mjög í takti við það sem gerist erlendis þó að auðvitað sé það mismunandi gert eftir t.d. löndum í Evrópu sem við miðum okkur við. Ef þetta frumvarp nær fram að ganga mun vonandi nást meiri sátt um skipun hæstaréttardómara í framtíðinni, en það má ekki skilja orð mín sem einhvern áfellisdóm yfir því hvernig menn hafa gert þetta í gegnum tíðina. Því miður höfum við hins vegar orðið vitni að því að einstaka skipanir hafa mætt mikilli gagnrýni, hvort sem þær eru réttar eða rangar.

Ég held líka, frú forseti, að sú tilhögun sem hér er lögð til sé mjög skynsamleg, þ.e. að tveir aðilar komi frá Hæstarétti í dómnefnd, einn frá Lögmannafélagi Íslands, einn frá dómstólaráði og einn tilnefndur af Alþingi. Ég fagna því sérstaklega að það sé tiltekið í greinargerð að þeir aðilar sem eru tilnefndir af Alþingi þurfi ekki að vera löglærðir. Stundum finnst manni, a.m.k. hér á þessum vinnustað, svífa yfir vötnum að menn megi ekki hafa skoðanir á lögum eða lagasetningu nema vera löglærðir. Á bls. 8 í greinargerðinni er talað um að þessir fulltrúar almennings þyrftu ekki að vera lögfræðingur en gætu að sjálfsögðu verið það, það er ekkert útilokað. Með leyfi forseta stendur hér:

„Þeir þyrftu að búa yfir víðtækri þekkingu á samfélagsmálum og vera vel metnir borgarar og væri hlutverk þeirra einkum að hafa nokkurs konar innra eftirlit með starfi nefndarinnar.“

Ég held að þetta sé afar mikilvægt. Ég ætla ekki að ræða þetta mál mjög ítarlega því að nú gengur það til allsherjarnefndar, við munum fjalla um það þar og væntanlega gera grein fyrir áliti okkar með nefndaráliti mjög fljótlega. Ég fagna þessu frumvarpi og tel það mjög til bóta. Eins og ég segi, ef þetta nær fram að ganga held ég að meiri sátt muni skapast um skipan bæði héraðsdómara og hæstaréttardómara í framtíðinni.