138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[14:59]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Til umræðu er frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla og hér er fyrst og fremst kveðið á um breytingar á skipun dómara. Ég vil í upphafi lýsa þeirri skoðun minni að þegar við erum að véla um breytingar á lögum er varða dómstólana, þennan þátt þrígreiningarinnar eins og um aðra þætti er lúta að þeim málum, finnst mér alltaf ástæða til að fara mjög varlega, fara mjög rækilega yfir hlutina og kanna hvort hægt sé að ná víðtækri sátt um þær breytingar sem verið er að gera. Þess vegna vil ég við 1. umr. áskilja mér þann rétt að taka þann tíma sem þarf til að fara rækilega yfir frumvarpið og ég vonast til þess og er nánast viss um að hv. allsherjarnefnd mun fara vel yfir það og kalla til þá sérfræðinga sem þörf er á til að skoða málið.

Það eru nokkur atriði sem vekja upp spurningar í huga mér þegar ég les frumvarpið, og ég vil taka fram að ég hef ekki haft tækifæri til að lesa niðurstöðu þeirrar nefndar sem kom að og er grunnurinn að samningu þessa frumvarps, en mér finnst vera ákveðin mótsögn í frumvarpinu. Hér er verið að leggja til að ráðherra dómsmála muni ekki fortakslaust hafa ákvörðunarvald um það hvaða dómaraefni er valið þegar kemur að því að ráða dómara. Lengi hefur verið deilt um það hvernig fara skuli með skipun dómara og ég hygg að á vettvangi t.d. stjórnarskrárnefndar hafi það nokkuð verið rætt hvort ástæða sé til að setja ákvæði um það, pósitíft ákvæði um það í stjórnarskrá að Alþingi þurfi ávallt að staðfesta skipun dómara. Ég held meira að segja að það hafi verið þverpólitísk samstaða um það í stjórnarskrárnefnd á tímabilinu 2005–2007 að sú leið væri vel tæk við skipun dómara að þegar dómsmálaráðherra hefði komist að niðurstöðu um val á dómara þyrfti Alþingi að samþykkja það eða hafna eftir atvikum.

Hér er farin sú leið — og ég vil kannski segja í því sambandi að það mætti alveg hugsa sér að þá þegar hefði dómnefnd komið að máli og valið menn sem kæmu til greina sem dómarar og þá þarf alltaf að velta fyrir sér hvernig að slíkri niðurstöðu er komist. Er nóg að dómaraefni séu metin hæf eða er æskilegt að raða þeim upp í röð frekar en að segja til um það hvað þurfi til svo að menn uppfylli þau skilyrði að verða dómarar? — Hér er farin sú leið að taka úr sambandi ráðgefandi hlutverk Hæstaréttar, sem líka hefur nokkuð verið gagnrýnt, og Hæstiréttur hefur sjálfur verið í nokkuð vandasamri stöðu, sér í lagi þegar verið er að velja hæstaréttardómara, að þurfa að koma með slíkt álit og það hafi svo verið ráðgefandi. En hér er lagt til að það sé tekið úr sambandi og í stað þess komi til kasta nefndar sem í sitja fulltrúar dómstólaráðs, dómsmálaráðuneytis og fulltrúi kjörinn af Alþingi sem ekki er áskilnaður um að sé löglærður heldur á hann að verða fulltrúi samfélagsins. Og eins og það er orðað í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að slíkir aðilar þurfi að hafa víðtæka þekkingu á samfélagsmálum og vera vel metnir borgarar og væri hlutverk þeirra einkum að hafa nokkurs konar innra eftirlit með starfi nefndarinnar. Ég get sagt fyrir mig að ég hugsa að það verði nokkuð erfitt fyrir Alþingi Íslendinga að ákveða hverjir eru vel metnir borgarar og hverjir ekki. Látum það vera, ég ætla ekki að fara að deila um það hér en það er greinilegt að það er skilyrðið að þeir sem eru fulltrúar Alþingis í þessari nefnd séu vel metnir borgarar.

Nú er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að dómsmálaráðherra sé skylt að fara að tilmælum nefndarinnar — þetta minnir nokkuð á hæfnisnefndir sem við höfum séð í háskólasamfélaginu — en svo kemur það sem mér finnst nokkuð athyglisvert og ég held að sé ástæða fyrir allsherjarnefnd að skoða, að ef dómsmálaráðherra líkar ekki niðurstaða nefndarinnar og sá sem raðað er í efsta sæti, getur hann innan ákveðins frests komið með það til Alþingis að annar skuli skipaður í starfið. Þar með kallast þetta í raun og veru töluvert á, hvort verið er að fara eftir niðurstöðu fagnefndarinnar þar sem í sitja að mestu lögfræðingar tilnefndir af Hæstarétti og slíkum aðilum eða því þegar dómsmálaráðherra líkar ekki niðurstaðan. Eins og ég skil þetta er hægt að fara með það til Alþingis og þá þarf ekki aukinn meiri hluta heldur einfaldan meiri hluta Alþingis. Það sjónarmið hefur líka verið uppi í lögmanna- og lögfræðingastétt og þeirra sem hafa áhuga á skipun dómara að ef kæmi til þess að við tækjum ákvörðun um að það sé rétt að Alþingi ákveði t.d. skipun hæstaréttardómara, mundi verða krafist aukins meiri hluta Alþingis til að reyna að ná samstöðu milli manna um það hver sé hæfastur í slík störf.

Það er mjög mikilvægt — og þetta segi ég vitandi það að menn hafa haft alls konar skoðanir á skipun dómara eins og svo mörgu öðru á Íslandi — að þegar við breytum þessum reglum reynum við að gera það þannig að um það náist sem víðtækust samstaða og við sköpum reglur sem eru til þess fallnar að gera kerfið betra, ef menn eru á þeirri skoðun. Ég er reyndar á þeirri skoðun persónulega að það sé hluti af ábyrgð ráðherra að skipa menn til starfa en það má vel færa rök fyrir því hvað varðar dómara — og ég vil taka það fram að um þetta hefur ekki verið ágreiningur eins og ég hef skilið það og hef séð á skjölum stjórnarskrárnefndar — að það sé ástæða til þess þegar um dómara er að ræða að Alþingi komi að því og ég hygg að um það hafi allir flokkar verið sammála að Alþingi eigi að koma að slíkri staðfestingu.

Ég staldra við þetta atriði og ég tel mjög nauðsynlegt að allsherjarnefnd fari rækilega yfir það hvernig með þetta skuli fara.

Síðan eru aðrir þættir sem vekja kannski aðrar spurningar þegar farið er í athugun á skipun dómara og störfum dómara, ef ég mætti leyfa mér að útvíkka spurninguna í það, og þá velti ég sérstaklega fyrir mér Hæstarétti. Uppi hafa líka verið sjónarmið um samningu dóma Hæstaréttar, sem ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra er að sjálfsögðu kunnugt um, en Hæstiréttur er þannig vaxinn að þar er yfirleitt einn dómari sem hefur með það að gera í hverju einstöku máli að semja dóminn og síðan komast menn, auðvitað eftir samráð og samtal, að ákveðinni niðurstöðu. Mig langar til að velta því upp hvort ástæða sé til þess, og það getur vel verið að sú spurning komi upp í vinnu allsherjarnefndar, að við veltum því betur fyrir okkur hvort gera ætti grein fyrir því hver semur viðkomandi dóm, dóminn samdi et cetera, og síðan hverjir kváðu hann upp. Fyrir þá sem hafa áhuga á lögfræði er stundum gaman að rýna í það hver skrifaði þennan dóm og hver skrifaði hinn dóminn. Þegar við lítum til þess hvernig Hæstiréttur hefur þróast má alveg með skapandi hugsun, eins og hæstv. utanríkisráðherra finnst svo gaman að nefna á góðum stundum, álykta um það hverjir hafa samið einstaka dóma. Það þekkist erlendis frá að slíkt sé gert og það getur vel verið að svona athugun geti leitt til þess að Hæstiréttur muni smám saman eða lögskýringarvaldið gæti að mörgu leyti styrkt, það væri hægt að leiða rök að því.

Ég vil við 1. umr. leggja áherslu á að við vöndum okkur mjög vel þegar að þessum málum kemur, þannig að við þurfum ekki stöðugt að vera að breyta miklu eða stöðugt að endurskoða heldur gerum þetta þannig að það standi um einhvern tíma. Og svo þetta, ef menn vilja fara eftir niðurstöðu dómnefndar þarf að útskýra það fyrir mér, og ég þarf að fá svör við því í vinnu nefndarinnar, hvernig á því stendur að það sé nauðsynlegt að ráðherra, dómsmálaráðherra á hverjum tíma, hafi heimild til að koma til Alþingis til að knýja fram aðra niðurstöðu. Og þá er spurningin sú: Er ekki eðlilegt að Alþingi komi ætíð að því þegar taka þarf slíka ákvörðun?

Þetta eru spurningar sem ég vonast til að svör fáist við í vinnu hv. allsherjarnefndar og að málið fái ítarlega umfjöllun. Ég legg áherslu á það þegar um þessi mál er að ræða að þau fái ítarlega umfjöllun og menn reyni að komast að sæmilegri samstöðu um þann mikilvæga vettvang sem Hæstiréttur og dómstólar landsins eru.