138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:10]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir innlegg hennar í umræðuna. Það er alveg ljóst að við munum fara vel yfir málið í allsherjarnefnd. Ég gleymdi reyndar í fyrri ræðu minni að geta aðalatriðis þessa frumvarps sem gengur einmitt út á það að hægt sé að skjóta málum til Alþingis ef einhver ágreiningur er uppi. Ég hef alltaf litið svo á að hér sé um einhvers konar öryggisventil að ræða, og það má alveg hugsa sér það og við getum farið yfir það í allsherjarnefnd hvort það eigi að vera einfaldur eða aukinn meiri hluti á þingi, mér finnst koma til greina að skoða það. En hér er fyrst og fremst verið í ljósi sögunnar og í ljósi reynslunnar að setja inn ákveðinn öryggisventil, þannig að ef ráðherra, sem ég held að þurfi að hafa ansi ríkar ástæður verði frumvarpið að lögum, ákveður að ganga gegn niðurstöðu dómnefndar sem hefur rökstutt álit sitt um að einhver tiltekinn aðili eigi að skipast í sæti dómara, þarf ráðherra að fara með þá ákvörðun fyrir þingið og þingið þarf að axla þá ábyrgð með ráðherranum að ganga gegn niðurstöðu dómnefndarinnar. Ég hef fyrst og fremst litið á þetta sem öryggisventil og töluvert mikilvægan öryggisventil. Ég vísa til þess að þetta er svipuð tilhögun og er í Danmörku svo dæmi sé tekið. Eins og ég segi er sjálfsagt að fara yfir þetta í nefndinni. Það getur vel verið að menn þurfi að skoða það sérstaklega hvort nægjanlegt sé að hafa einfaldan meiri hluta eða hvort þurfi aukinn meiri hluta ef ráðherra ákveður að ganga gegn niðurstöðu dómnefndar, sem ég hygg að ráðherra þurfi að hafa verulega ríkar málsástæður til að gera og skjóta því þannig til þingsins.