138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:29]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er auðvitað alltaf hin klassíska spurning: Hver er réttborinn til þess að vera kallaður fulltrúi almennings hverju sinni?

Hv. þingmaður nefnir hérna Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem ég þekki nú nokkuð vel til. Ég hygg að menn muni reka sig á svipuð vandamál og hér inni á þinginu ef Samband íslenskra sveitarfélaga ætti að fara að tilnefna fulltrúa, vegna þess að þar er auðvitað skipað í stjórn samkvæmt pólitískum línum flokkanna á landsvísu og í fulltrúaráð með sama hætti, þannig að ég held að yrði afskaplega erfitt að komast fram hjá því.

Hugmynd hv. þingmanns um að það yrði hreinlega kosið til dómnefndar finnst mér afar áhugaverð og allrar skoðunar verð. Við mundum sjá fram á kosningabaráttu velmetandi borgara eins og stendur hér í greinargerðinni, sem mundu keppast um að koma sér á framfæri til þess að láta kjósa sig í dómnefnd til þess að meta hæfi dómara. Ég efast ekki um það að ýmsir málsmetandi fyrrverandi þingmenn sæju sér þarna leik á borði að bjóða sig fram og láta kjósa sig. En auðvitað eru þetta allt vangaveltur sem vert er að skoða. Við munum auðvitað gera það í allsherjarnefndinni. Ég mun taka mið af þeim athugasemdum sem hafa komið fram, en í fljótu bragði verð ég að lýsa þeirri skoðun minni yfir að a.m.k. í augnablikinu sé ég ekki einhvern aðila annan en Alþingi sem getur með góðum hætti skipað þennan svokallaða fulltrúa almennings í þessu tilfelli.