138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

dómstólar.

390. mál
[15:37]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir innlegg sitt í þessa umræðu. Hv. þingmaður kom inn á eitt mál sem er til umfjöllunar í allsherjarnefnd og það er varðandi stjórnlagaþing. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á það vegna þess að ég tel það afar mikilvægt og vinn að því hörðum höndum innan nefndarinnar að geta fullunnið það og klárað út úr nefndinni. Við vitum að málið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Ástæðan fyrir því að það hlaut ekki afgreiðslu var fyrst og fremst sú að skiptar skoðanir voru um hvort það ætti að vera ráðgefandi eða bindandi. Í því frumvarpi sem núna liggur fyrir er gert ráð fyrir að það sé ráðgefandi og ástæðan fyrir því er auðvitað sú að samkvæmt óbreyttri stjórnarskrá er ekki hægt að hafa stjórnlagaþingið bindandi, eins og hv. þingmaður veit. Ef menn ætluðu sér að hafa það bindandi þyrfti að halda alþingiskosningar og kjósa upp á nýtt og þá er hætt við að málið tefjist.

Ég vil því nota þetta tækifæri til að skora á þingmenn úr öllum flokkum að leggjast á sveif með mér um að taka málið út úr nefnd og inn í þingið þannig að það verði hugsanlega hægt að kjósa til stjórnlagaþings í tengslum við sveitarstjórnarkosningar eða síðar í sumar, hvort sem stjórnlagaþing fer síðan fram í sumar, haust eða á næsta ári. Það er raunar ekki gert ráð fyrir fjármunum í fjárlagafrumvarpinu í stjórnlagaþing á þessu ári en auðvitað má alltaf breyta því ef menn telja að málið sé það brýnt. Ég fagna því að varaformaður Framsóknarflokksins sýni áhuga á því að koma stjórnlagaþinginu í gegn og þá efast ég ekki um að allir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, nái að koma málinu inn á þing fyrir vorlok þannig að það geti orðið að lögum áður en við slítum þingi í vor og það verði hægt að kjósa til stjórnlagaþings (Forseti hringir.) í vor eða í sumar.