138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

almenn hegningarlög.

45. mál
[16:30]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég gleymdi því í aðalræðu minni að óska eftir því að þessu máli yrði vísað til allsherjarnefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu. Ég vænti þess og veit að allsherjarnefnd mun taka þetta mál fyrir og senda það vonandi sem allra fyrst til umsagnar. Tilgangur frumvarpsins er einnig sá að varpa ljósi á þetta gríðarlega vandamál sem við búum við og skoða það frá öllum hliðum.

Ég er algjörlega sannfærður um það, eins og ég sagði áðan, að lögskýringargögn að baki frumvarpinu varpi nákvæmu ljósi á það hvert flutningsmenn þess eru að fara með því. Það er afar mikilvægt að fá sjónarhorn sem flestra og þá ekki síður sérfræðinga dómsmálaráðuneytisins á málið. Ég veit það og vænti þess að allsherjarnefnd muni leita til dómsmálaráðuneytisins og þeirra sérfræðinga sem þar starfa.

Að lokum hvet ég hæstv. dómsmálaráðherra til að klára frumvarpið um austurrísku leiðina um heimilisofbeldi sem er ekki síður vandamál sem þetta þjóðfélag býr við og ég veit að það er verið að vinna að því.