138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[16:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir lýsingu á þessu frumvarpi. Þar er verið að bregðast við ákveðnum vanda, menn misnota kerfið o.s.frv. Mér finnst kannski einum of mikið um það í öllu þjóðfélaginu og um allan heim að menn bregðist við alls konar glæpaverkum þannig að það virðist sem það séu glæpamennirnir sem stjórna heiminum en ekki heiðvirðir borgarar. Þegar menn fara til útlanda eru þeir látnir rífa af sér fötin, beltin, skóna og allt saman vegna þess að einhverjir glæpamenn hafa gert eitthvað. Það er önnur saga.

Það er félagafrelsi samkvæmt stjórnarskrá, þ.e. það er bæði neikvætt og jákvætt félagafrelsi, mönnum er heimilt að stofna til félaga og mönnum er líka heimilt að standa utan félaga. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað gerist ef fyrirtæki stendur utan félaga og starfsmennirnir allir standa utan stéttarfélaga? Hvað gerist með slíkan aðila þegar einhver fulltrúi fær samkvæmt lögum heimild til að fara inn í fyrirtækið og gera eitt og annað í nafni samtaka og félagasamtaka sem hvorki félagið né starfsmennirnir eru félagar að og hafa til þess stjórnarskrárbundinn rétt?