138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[16:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í árdaga verkalýðshreyfingarinnar stofnuðu menn félög til að berjast fyrir rétti sínum sem var afskaplega lélegur og stofnuðu með sér verkalýðsfélög af illri nauðsyn sem komu mörgu góðu til leiðar. Svo hafa liðið áratugir og meira að segja öld og þessi félög eru búin að tryggja sér ákveðna tekjustofna með félagsgjöldum sem eru nánast ígildi skatts og fjöldi fólks greiðir án þess að vita að um er að ræða félagsgjald í félagi sem þeir eru sjálfviljugir í. Þessi stéttarfélög hafa myndað með sér samtök sem eru mjög öflug og voldug og semja hinum megin við samtök sem eru mynduð úr samtökum félaga atvinnurekanda sem einnig eru með félagsgjöld. Sum þeirra eru meira að segja lögbundin eins og iðnaðarmálagjaldið, sem er reyndar fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, og búnaðargjaldið og fleiri gjöld sem eru innheimt með sama hætti. Allt þetta kerfi er að stofnanagerast, það er í rauninni að verða hluti af ríkisheildinni. Það frumvarp sem við hér ræðum er enn einn anginn af því að gera stéttarfélögin og samtök þeirra og fyrirtækjasamtökin og samtök þeirra að hluta af ríkisvaldinu. Ég spyr mig: Hvað gerir verkamaður í framtíðinni sem vill bæta kjör sín og stofna stéttarfélag vegna þess að honum líkar ekki við það stéttarfélag sem hann er neyddur til að vera aðili að í krafti samninga aðila vinnumarkaðarins sem gera með sér samninga sem kveðið er á um að maðurinn hafi forgang til vinnu? Ef hann gerir einhvern uppsteyt er honum sagt upp.

Hvað gerir það fólk sem vill kannski fá betri kjör en það hefur í dag og vill grípa til aðgerða? Það getur jafnvel ekki stofnað stéttarfélag vegna þess að það þyrfti þá að greiða tvöfalt, bæði til stéttarfélagsins sem því er gert að borga í og þess nýja. Við erum komin í stöðu sem ég hugsa að forkólfar stéttarfélagabaráttunnar fyrir 100 árum hefðu ekki getað ímyndað sér. Hér er einn angi af þessu líka. Hér er komið upp eftirlit á vinnustöðum vegna þess að það hefur komið í ljós að menn misnota sérstaklega atvinnuleysisbætur, þeir misnota kerfið. Í misnotkuninni felst kostnaður fyrir þjóðfélagið, það verður siðrof o.s.frv. þannig að menn reyna að berjast fyrir að þetta hætti. Mér finnst þetta vera mjög hættuleg þróun. Það er ekki út í bláinn sem ákvæði um félagafrelsi var sett inn í stjórnarskrána. Við skulum ekki horfa fram hjá því. Það vill nefnilega svo til að við hv. þingmenn höfum svarið eið að stjórnarskránni sem grundvallarlögum og megum ekki horfa fram hjá því jafnvel þó að nauðsyn brjóti lög. Nauðsyn brýtur aldrei stjórnarskrárlög, aldrei. Menn ættu að skoða aðrar leiðir. Ég hef svo sem nefnt það og vil spyrja hæstv. ráðherra, fyrst hann er nálægur, hvort menn hafi reynt að vinna á atvinnuleysinu með öðrum hætti.

Eitt það alvarlegasta við atvinnuleysið sem er mjög alvarlegt er niðurbrot á sjálfsvirðingu. Sem betur fer hafa mjög margir ekki kynnst atvinnuleysi á eigin skinni en þeir sem hafa horft upp á atvinnuleysi vita hvernig það er. Þetta gengur kannski vel í nokkrar vikur en síðan fer einstaklingurinn að brotna niður og eftir sex mánuði sýna rannsóknir jafnvel að hann er orðinn öryrki vegna niðurbrots. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað menn hafi gert til að vinna gegn þessu, t.d. með aukinni virkni atvinnulausra, með því að ráða hlut af atvinnulausum, til að stjórna hópum atvinnulausra í leit að vinnu, í leit að annarri menntun, til að stofna fyrirtæki eða eitthvað annað slíkt. Það væri jafnvel hugsanlegt að atvinnulausir héldu áfram að mæta í vinnu kl. 8 á morgnana eða til 4 á daginn eða eitthvað slíkt eins og venjulega og t.d. virkjaðir til þess að sækja um vinnu eða til að læra hagnýt fræði af öðrum sem eru atvinnulausir. Þetta þarf ekki að kosta neitt voðalega mikið og kæmi algerlega í veg fyrir misnotkun því að maður sem er virkur í einhverju starfi vinnur ekki annars staðar á meðan. Þá þyrftu menn ekki þetta kerfi sem verið er að byggja upp hérna og hefur afskaplega mikinn ónotablæ, að menn þurfi að ganga með eitthvert skírteini til sönnunar þess að þeir vinni einhvers staðar.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra í leiðinni: Fá þingmenn svona skírteini líka sem sannar að þeir vinni á þessum vinnustað hérna? Hvar eru mörkin dregin? Fá allir embættismenn, kennarar o.s.frv. svona skírteini eða er þetta bara ætlað fyrir lágtekjuhópa eða bara fyrir útlendinga? Ég næ því ekki alveg. Auðvitað er þetta miklu einfaldari leið, frú forseti, ef maður hugleiðir það. Það vill svo til að ríkið, stóri bróðir, er kominn með einkenni á hverjum einasta manni sem heitir kennitala. Og í staðinn fyrir að gefa út skírteini um að þessi maður, Jón Jónsson vinni hjá fyrirtækinu Jóni Jónssyni hf. gefi fyrirtækið upp kennitölu sína og kennitölu mannsins og svo fari eftirlitsmenn inn á vinnusvæði eða kennitölu Jóns Jónssonar hf., hitta þar fyrir mann, spyrja hann og fá vitneskju um hvaða kennitölu hann hefur og þar með er málið leyst. Hann þarf ekki nein sérstök skírteini um það.

Ég vara mjög við þessu og ég vildi gjarnan að menn skoðuðu nákvæmlega út á hvaða braut þeir eru komnir með þessu eftirliti með borgurunum alla daga. Það er mjög miður þegar maður horfir yfir sviðið, bæði hið alþjóðlega og hér á landi, og sér hvernig glæpamennirnir hafa áhrif á okkur því að við bregðumst alltaf við með þessum hætti. Það má eiginlega segja að glæpamenn stjórni heiminum en ekki löggjafarsamkundur og aðrir.