138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

Vestfirðir sem vettvangur kennslu í sjávarútvegsfræðum o.fl.

114. mál
[17:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp til að taka undir áherslur hv. þingmanns og þeirra sem eru flutningsmenn að þessari ágætu þingsályktunartillögu um að skilgreina Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða og það sjónarmið hv. þingmanns um hversu mikilvægt er að marka hverjum landshluta ákveðinn hlut í uppbyggingu, rannsóknum, þekkingarsöfnun og miðlun. Það er svo að þau rannsókna- og fræðasetur sem hafa verið stofnuð hringinn í kringum landið hafa skilað, þótt ekki séu stór, gríðarlega góðu starfi og verið til eflingar viðkomandi samfélagi og líka fyrir landið í heild með þeirri uppbyggingu. Hér er sérstaklega dregið fram rannsóknasetur í málefnum hafsins og strandsvæða og það hefur einmitt verið unnið að slíku á Ísafirði, eins og hv. þingmaður kom inn á, á háskólasetrinu þar við veiðarfærarannsóknir þar sem meginþungi rannsókna Hafrannsóknastofnunar varðandi veiðarfærarannsóknir og fleira fer fram. Ég hef einmitt lagt áherslu á það af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að það verði staðið á bak þessi verkefni og þá vinnu sem er byggð upp á Ísafirði og annars staðar.

Ef ég kem í seinna andsvar við hv. þingmann, frú forseti, vil ég enn hnykkja á í þessu ágæta máli.