138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

Vestfirðir sem vettvangur kennslu í sjávarútvegsfræðum o.fl.

114. mál
[17:39]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs í þessari umræðu um þá tillögu til þingsályktunar sem liggur fyrir og segja að efnislega get ég mjög vel fallist á það sem hér er lagt til. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að eitt helsta vandamál í byggðamálum okkar Íslendinga hafi verið það að það vantaði fjölbreytni og tækifæri til menntunar í heimabyggð og meiri fjölbreytileika vantaði almennt í byggðamunstrið. Ég á þá við að það er svo erfitt að verja byggðir þar sem t.d. er bara sjávarútvegur eða önnur einhæf atvinnustarfsemi.

Ég lít svo á að verið sé að leggja til aðgerðir sem hjálpa til á því svæði sem hér um ræðir, sem eru Vestfirðirnir, hjálpa til með að styrkja byggð á því svæði og gera það líka á þann hátt að það standi undir sjálfu sér, ef svo má að orði komast, þ.e. að þær rannsóknir og sú þróun sem þar fer fram innan sjávarútvegsins á að geta skilað verðmætum fyrir þjóðarbúið allt.

Þá velti ég því fyrir mér, af því að við höfum svo oft rætt fiskveiðistjórn í þessum sal, m.a. í ljósi þeirra hugmynda sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og fleiri hafa rætt um hvernig fleiri aðilar en bara Hafrannsóknastofnun geti komið að ráðgjöf og komið fram með hugmyndir um stjórn fiskveiða, hvort í gegnum slíkar rannsóknir í þeim fræðum sem þarna yrðu stunduð væri ekki hægt að sjá fyrir sér einhvers konar slíka vinnu.

Ég hef oft hugleitt það, frú forseti, hvernig standi á því að við Íslendingar, sem eigum svo mikið undir sjávarútvegi, höfum staðið okkur jafnilla og raun ber vitni um í menntamálum í greininni. Lengi vel var það þannig að ef menn vildu afla sér góðrar menntunar var nauðsynlegt að fara til Noregs, til Tromsö, til að sækja nám í þessum grundvallaratvinnuvegi okkar Íslendinga. Það má heita alveg furðulegt að mínu mati hvað Háskóli Íslands hefur í raun og veru sinnt þessari meginatvinnugrein þjóðarinnar lítið. Auðvitað er þar margt gert sem skiptir máli fyrir greinina sem gerist ef svo má segja á þverfaglegu sviði, innan verkfræðideildar og fleiri deilda er verið að vinna að rannsóknum sem snúa beint að sjávarútvegi og fiskiðnaði, en það breytir ekki því að okkur hefur vantað sterkara nám, meira alhliða nám fyrir sjávarútveginn. Auðvitað er rétt að nefna sjávarútvegsnámið við Háskólann á Akureyri.

Ég lít svo á að sú hugmynd sem hér er verið að lýsa sé gott innlegg inn í það þarfa verkefni að byggja upp öfluga þekkingu í þessari mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Það er nefnilega þannig, og það skiptir miklu máli, að auðlindin sjálf er takmörkuð. Hún er endurnýjanleg en hún er takmörkuð. Það sem ekki er takmarkað er mannvitið, hugmyndirnar, skynsemin, framtakið, það eigum við til í ótakmörkuðum mæli. Með menntun og rannsóknum munum við auka verðmæti fiskveiðiauðlindarinnar. Þeir fjármunir sem veittir eru til slíkra rannsókna og slíkrar menntunar eru fjármunir sem munu skila sér margfalt til baka til íslensku þjóðarinnar, ég er sannfærður um það.

Bæði er því hér á ferðinni mál, sem ég styð, sem snýr að eflingu byggðar á umræddu svæði sem ég tel vera mjög mikilvægt því að það er í gegnum slíkar aðgerðir sem ríkið getur skotið styrkari stoðum undir landsbyggðina, þ.e. á sviði menntamála og samgöngumála fyrst og síðast og heilbrigðismála — ekki með því að taka beinan þátt í atvinnurekstri — og hins vegar er þetta mál ágætt hvað það varðar, eins og ég sagði áðan, að það leggur í púkkið þegar kemur að menntun og rannsóknum á sviði þessa mikilvæga atvinnuvegar okkar Íslendinga.