138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

176. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir góðar viðtökur hans í þessu máli og flutningsmönnum þess. Ég held að hann hafi einmitt hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að þetta snerist um traust.

Það er vissulega svo að borið hefur verið mikið traust til Íslands. Ég man eftir því að fyrir fáeinum árum þegar var verið að ræða um möguleika á nýju álveri hér á landi komu upp í umræðu spurningar um hvort hugsanleg fjárfesting í álveri yrði hér eða í Venesúela. Mér er þetta mjög minnisstætt vegna þess að þá var því varpað upp að á margan hátt væru aðstæður í Venesúela mjög hagstæðar, orkuverð og þess háttar, en þeir sem um það véluðu horfðu hins vegar mjög til þess að hið pólitíska ástand í Venesúela væri ótraust og það gæti á vissan hátt riðið baggamuninn um ákvörðun manna í þeim efnum.

Ísland hefur með öðrum orðum alltaf haft það yfirbragð að vera traust og ábyggilegt land og þeir sem kæmu hingað til fjárfestinga vissu að þau plön sem þeir legðu upp með gætu staðist af þeim ástæðum. Það getur ýmislegt auðvitað sveiflast í kringum okkur en hið pólitíska umhverfi væri a.m.k. þannig að menn gætu treyst því sem hér væri að gerast.

Þetta hefur hins vegar glatast, ekki bara vegna þess að menn töpuðu miklum fjármunum á því að fjárfesta á Íslandi eftir hrunið heldur líka vegna þess að pólitískt ójafnvægi hefur verið hér á landi. Ríkisstjórnin hefur verið að koma fram með mál sem hún hefur ekki getað fylgt eftir. Hún hefur ekki reynst traustur samningsaðili. Ríkisstjórnin hefur verið að leggja fram ýmsar hugmyndir, t.d. í skattamálum, sem hefur ekki gert Ísland eins aðgengilegt fyrir erlenda fjárfesta og síðan hitt að menn hafa ekki getað treyst því að það efnahagsumhverfi sem er í dag, þ.e. skattalegt umhverfi fyrirtækja o.s.frv., muni ríkja á morgun. Hugmyndir manna um að auka hér stórkostlega skattlagningu á atvinnulífið er gott dæmi um það.

Þið hafið ekki komist að því fullkeyptu, sagði hæstv. fjármálaráðherra á frægri ráðstefnu, svo ég reyni að þýða umrædd ummæli hans, og auðvitað eru það ekki góð skilaboð til þeirra sem hyggja á fjárfestingar hér né heldur yfirlýsingar sendimanna hæstv. ríkisstjórnar sem tala um að hér geti blasað við þjóðargjaldþrot. Við eigum því gífurlega mikið verk fyrir höndum að byggja upp þetta traust.

Mikið eignahrun varð hér eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, það hurfu út úr hagkerfinu gríðarleg verðmæti og þetta voru ekki bara verðmæti sem Íslendingar áttu, þetta voru líka verðmæti sem útlendingar áttu. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að búa þannig um hnútana að í lagaumhverfinu og samningsumhverfinu milli landa sé reynt að setja það miklar skorður sem geri það að verkum að menn geti haft trú á því umhverfi sem þeir eru að taka þátt í, fjárfesta eða taka þátt í atvinnurekstri.

Gleymum ekki því að gjaldþrot eru í raun og veru sóun verðmæta. Það sem gerist við gjaldþrot er að verðmæti sem eru jafnvel efnisleg glatast langt umfram það sem á sér stað þegar fyrirtæki halda áfram og við sjáum allt of mörg sorgleg dæmi um það að mönnum gengur mjög illa að halda utan um verðmætin. Auðvitað eru allir að reyna að gera sitt besta, skiptaráðendur, skilanefndir eða hvaða nöfnum sem það nefnist. Engu að síður er það bara þannig að í stórum gjaldþrotum er þessi hætta mjög fyrir hendi og á slíka hluti horfa þeir fjárfestar mjög sem við viljum laða hingað til lands.

Síðan er það hitt sem við megum heldur ekki gleyma og það er að Íslendingar eiga gífurlega hagsmuni í þessum efnum erlendis. Lífeyrissjóðirnir hafa t.d. fjárfest stórar fúlgur erlendis. Það hefur verið að koma þeim til góða núna upp á síðkastið þegar fjárfestingarkostirnir hafa ekki verið svo góðir hér á landi, menn voru að tapa miklum fjármunum í gjaldþrotum stóru fjármálastofnananna. Þá hefur skipt máli fyrir okkur sem þjóð að lífeyrissjóðirnir hafa verið að hluta til fjármagnaðir með fjárfestingum í erlendum bréfum, hlutabréfum og skuldabréfum. Þess vegna skiptir miklu máli fyrir okkur að þeir gífurlegu hagsmunir sem við eigum erlendis séu tryggir.

Við trúðum því örugglega að samningar okkar við Evrópuríkin í gegnum EES, hið Evrópska efnahagssvæði, veittu okkur nægjanlegt skjól. Þetta var ábyggilega ástæðan fyrir því að við vorum lítið að hugsa um möguleikana á gagnkvæmum samningum um gagnkvæma vernd fjárfestinga. Evrópusambandið og Evrópa er okkar langstærsti markaður og þar eigum við mestu hagsmunina og þar töldum við okkur í góðu skjóli af öllum þessum samningum og auðvitað í ljósi áratuga ef ekki aldagamallar reynslu af því að eiga samskipti við þessi ríki. En gáum að einu: Ríki eins og t.d. Bretland, sem er gamalt nýlenduríki og hefur þessa miklu reynslu af samskiptum við aðrar þjóðir, hefur verið í fararbroddi þeirra ríkja sem hafa verið að gera samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga. Af hverju ætli það sé? Jú, það er vegna þess að þeir þekkja auðvitað slíkar aðstæður. Þeir gera sér grein fyrir að aðstæðurnar geta breyst og þeir gera sér grein fyrir að hluti af því trausti sem þarf að byggjast upp verður ekki búið til nema um það sé settur ákveðinn rammi sem allir aðilar geti treyst á. Menn vita að hlutir geta sveiflast til.

Hver hefði t.d. átt von á því að okkar gamla vinaríki Bretland mundi láta það verða sitt fyrsta verk þegar hvað verst stóð á hjá okkur að setja hryðjuverkalög á okkur sem felldi okkar stærsta banka og olli okkur ómældu tjóni sem við getum aldrei nokkurn tíma metið til fulls? Það var ekki bara það að þarna glötuðust verðmæti í þessum tilteknu fjármálastofnunum, þetta hefur haft þau áhrif að við höfum gengið haltrandi til leiks í þessu meinta alþjóðasamfélagi þar sem við höfum svo mikla hagsmuni að öllu leyti.

Þess vegna, virðulegi forseti, tel ég að það skipti gífurlega miklu máli að menn horfi til nýrra möguleika sem eru til staðar, möguleika sem við höfum ekki verið að nýta okkur. Þessir gagnkvæmu fjárfestingarsamningar, samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga öllu heldur, eru tæki í þessum efnum, tæki sem við höfum ekki beitt af neinu viti. Við höfum verið að gera samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga við ríki eins og Chile, Egyptaland, Indland, Suður-Kóreu, Kína, Lettland, Líbanon, Litháen, Mexíkó, Víetnam og Singapúr, en Singapúr-samningurinn er reyndar hluti af fjárfestingarsamningi EFTA. Það sjá allir að þetta eru ekki okkar stóru hagsmunir, þeir munu ekki liggja a.m.k. fyrst um sinn í þessum ríkjum. Síðan bíða fullgildingar samningar við Egyptaland og Líbanon. Allt er þetta gott og blessað en þetta breytir engu um stóru myndina.

Við þurfum þess vegna á Alþingi að marka stefnu, segja framkvæmdarvaldinu fyrir verkum, segja að það sé álit Alþingis að fara eigi í það af ástæðum sem ég hef þegar rakið, að ganga í það að gera þessa samninga við ríki þar sem hagsmunir okkar eru mestir, ekki síst ríki í Evrópu og reyndar fleiri ríki. Það ætti að vera einn af áherslupunktunum í utanríkisstefnu okkar núna einmitt að búa til umhverfi sem laðar hingað að erlent fé og það verður m.a. gert með þeim samningum sem ég er hér að nefna.

Það er gott og blessað fyrir okkur að beita utanríkisþjónustunni á margvíslega vegu eins og menn hafa verið að gera í gegnum tíðina en við núverandi aðstæður eigum við fyrst og fremst að líta okkur nær. Við eigum að líta til okkar beinu hagsmuna og okkar beinu hagsmunir við þessar aðstæður eru ekki þeir að stilla til friðar í fjarlægum heimsálfum, þó að það sé gott og glæsilegt og göfugt markmið. Hagsmunir okkar liggja frekar í því að búa sem best um okkur sjálf, gera sem mest úr þeim verðmætum sem við höfum og laða til okkar erlent fjármagn. Við höfum gríðarlega mörg tækifæri. Þau tækifæri felast núna m.a. í hinu lága gengi íslensku krónunnar sem er þessa stundina að hjálpa okkur þó að hliðarverkanirnar séu óskaplega erfiðar og sárar bæði fyrir atvinnulíf og einstaklinga eins og við gerum okkur grein fyrir.

Við vitum líka að útlendingar horfa til okkar vegna hins lága gengis. Það er athyglisvert t.d. að í þeim svörum sem hæstv. ráðherrar hafa verið að veita þegar eftir því hefur verið spurt hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum, hvað sé að gerast í þeim efnum, þá vísa þeir yfirleitt alltaf til þeirra tækifæra sem liggja í útflutningsatvinnuvegunum, nýjum litlum fyrirtækjum, sprotafyrirtækjum, ferðaþjónustufyrirtækjum o.s.frv., sem fyrst og fremst eru núna að nýta sér hið lága gengi íslensku krónunnar. Það er ekki síst af þeim ástæðum sem ríður svo á að nýta þetta lag sem við höfum þrátt fyrir allt, þrátt fyrir alla erfiðleikana, til að búa þannig um hnútana að þeir sem vilja leggja til fjármuni hingað í atvinnulífið í formi lánsfjár eða hlutafjár geti gert það og sofið sæmilega rólegir, að minnsta kosti gagnvart því að fjárfesting þeirra sé vernduð með eðlilegum samningum á milli þjóða. Og síðan hitt, sem ég vil gera að lokaorðum mínum, að við með þessum hætti treystum líka og tryggjum eignir okkar erlendis. Við megum ekki við því að frekari töf verði á (Forseti hringir.) eignum okkar í útlöndum.