138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að skiptir sköpum upp á jákvæða þróun efnahagsmála á næstu mánuðum og missirum að Landsvirkjun láti af fyrri áformum sínum sem komu fram í áðurnefndri bókun um að ekki standi til að selja orku til nýrra álvera á suðvesturhluta landsins. Eins að Landsvirkjun komi að orkusölu til nýs álvers Norðuráls í Helguvík og fleiri uppbyggingarverkefna þar suður frá og annars staðar á suðvesturhluta landsins sem snúa að orkuvinnslu. Ég tel það gríðarlega mikilvægt og hef óskað eftir því að eiga fund með forstjóra Landsvirkjunar um þetta mál, hvort það sé til endurskoðunar, af því að aðstæður eru gerbreyttar. Landsvirkjun býr t.d. yfir umframorku upp á 40 megavött sem nýta má í þetta strax. Ég tel að ef Landsvirkjun kemur strax að borðinu og reyni að útvega Norðuráli orku fyrir álverið í Helguvík gæti það orðið til að styrkja mjög stoðir þeirrar framkvæmdar allrar og flýtt henni verulega. Ef Landsvirkjun kemur ekki að því að afla Norðuráli orku fyrir álverið í Helguvík gæti dráttur orðið á framkvæmdinni, hún gæti frestast. Tímaáætlanir standast hugsanlega ekki vegna þess að það tekur lengri tíma en ráð var fyrir gert að vinna háhitaorkuna bæði hjá HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. Því skiptir gífurlega miklu máli að Landsvirkjun endurskoði fyrri ákvörðun sína frá því árið 2007 að útvega ekki orku til nýrra álvera á suðvesturhorninu, a.m.k. tímabundið meðan HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur reyna að finna, nýta og flytja jarð- og háhitaorkuna í jörðinni. Stjórnvöld hafa greitt mjög mikið fyrir þessu verkefni t.d. með starfsleyfinu, suðvesturlínu og fjárfestingarsamningi, og nú er komið að fjórða atriðinu sem er orkuöflun frá Landsvirkjun til þessa verkefnis.