138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag er 24. febrúar árið 2010. Þetta er nokkur tímamótadagur því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mælti með því við leiðtoga sambandsins í dag að hafnar verði viðræður við Íslendinga um aðild að sambandinu. Þar er nokkur hængur á því að ýmis skilyrði fylgja því. Framkvæmdastjórnin skipar svo fyrir að Íslendingar verði að gera átak í að samræma löggjöf Íslands og sambandsins og/eða innleiða tilskipanir varðandi sjávarútveg, landbúnað, þróun landsbyggðar, umhverfismál, frjálst flæði fjármagns og fjármálaþjónustu auk þess að samræma ýmsar reglur í tollamálum, skattheimtu, hagtölum, matvælaöryggi og fleira.

Ágætu þingmenn. Ágætu Íslendingar. Við sjáum að þessi ríkisstjórn ætlar ekki að vinna fyrir heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Við sjáum með þessu að löggjafarvaldið, Alþingi Íslendinga, verður undirlagt af því á næstu mánuðum að breyta lögum Íslands til að við séum hæf til að verða umsóknarríki. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum miðað við hvernig staða Íslands er í dag, hvernig staða þegnanna okkar er, og sífellt berast verri fréttir af stöðu heimilanna. Ég minni á að beinn kostnaður við þessa aðildarumsókn eru 1.000 millj. og þá er ekki talinn með sá hliðarkostnaður sem af þessari umsókn hlýst. Ágætu Íslendingar. Munið þessa dagsetningu. Það eru miklir örlagatímar að ganga í garð.