138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá athyglisverðu umræðu sem hefur átt sér stað í kjölfar fyrirspurnar minnar til hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Ég fagna því að svo virðist sem hv. þingmaður sé algjörlega einn á báti í ofstæki sínu gegn þessu ágæta fyrirtæki og þeirri ágætu uppbyggingu sem þarna er á ferðinni. Ég verð að segja að — (ÖJ: Það komast engir að.) Ég verð að segja að það sem stendur upp úr í þessu er gamaldags andúð gamalla vinstri manna, án tillits til aldurs, andúð á öllu sem heitir einka-eitthvað (Gripið fram í: Vinavæðing.) og það er (Gripið fram í.) rangt að þetta sé fjármagnað af íslenskum skattgreiðendum, það er rangt að þarna sé verið að skapa tvöfalt heilbrigðiskerfi, það er rangt, (ÖJ: En erlendir skattgreiðendum?) hv. þingmaður. Erlendir skattgreiðendur munu væntanlega borga þetta í gegnum sínar sjúkratryggingar. Og hvað með það? spyr ég. Ef evrópsk stjórnvöld komast að því (Gripið fram í.) að það er ódýrara (Gripið fram í.) fyrir þá sjúklinga að kaupa sér tryggingar og fara til útlanda — við erum í sameiginlegu evrópsku kerfi sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vill að við tengjumst enn frekar með aðild okkar að Evrópusambandinu. Ég minni hv. þingmann á að það er ekki bæði hægt að greiða atkvæði með því og styðja það og ætla svo að koma í veg fyrir að nokkur útlenskur aðili komi hingað til lands. Svona gengur þetta ekki, hv. þingmaður. (ÖJ: Það kom …) Í millitíðinni skulum við sameinast um að byggja upp atvinnu, við skulum sameinast um að nýta tækifærin sem eru úti um allt, við skulum sameinast um að koma í veg fyrir að íslenskir læknar finni sig knúna til að flytja til útlanda og að við missum ungt fólk og að íslenskir skattgreiðendur (Forseti hringir.) niðurgreiði læknanám fyrir erlend ríki. Sameinumst um það, hv. þingmaður. (Gripið fram í: En hvenær á að borga …? …)