138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson) (F):

Frú forseti. Sú fyrirspurn sem hér liggur fyrir lýtur að þeim stjórnsýslubreytingum sem nauðsynlegt er að gera vegna aðildar að Evrópusambandinu. Fyrir liggur að Evrópusambandið gerir margvíslegar stjórnsýslulegar kröfur til Íslands í tengslum við aðildarferlið. Það eru kröfur um að ákveðnar stofnanir séu fyrir hendi til að sinna einstökum hlutverkum samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins, það eru kröfur um að ákveðnum upplýsingum sé safnað með ákveðnum og sérstökum hætti, svo sem hagtölum og annarri tölfræði, og það eru kröfur um að komið sé upp sérstöku eftirliti og matskerfi fyrir ýmis verkefni sem falla undir sameiginlega stjórnsýslu sambandsins.

Frú forseti. Allar þessar kröfur verður að vera búið að uppfylla áður en ljóst er hvort þjóðin samþykkir að ganga í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur komið upp að framkvæmdaráðið treystir t.d. ekki Bændasamtökum Íslands til að taka saman þær hagtölur sem það hefur gert til margra ára. Í því tilfelli þarf að grípa til nýrra aðgerða. Hvernig yrði það gert? Hið sama gildir um beingreiðslur og fleiri þætti, svo sem nýliðunarstyrki og nýsköpunarstyrki í landbúnaðinum.

Það er þekkt að í ríkjum Evrópusambandsins hefur verið sett upp það sem við getum kannski kallað greiðslustöðvar landbúnaðarstyrkja. Eins og komið hefur fram er ljóst að slíkar stofnanir hafa þurft að vera tilbúnar með öllu starfsfólki og öllum búnaði áður en gengið er til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því eðlilegt að spyrja hver áætlaður kostnaður sé við þetta verkefni. Ef aðildarsamningurinn verður felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu má telja þetta hreina sóun á fjármagni og rétt er að minna á að ríkissjóður er fjársveltur. En vita stjórnvöld eitthvað hvað þetta kostar? Það er hluti af því að spyrja jafnframt: Hvað má telja líklegt að vinna við þetta kalli á mörg ársverk í stjórnsýslunni? Hefur það verið metið og er það kannski stærsta aðgerð stjórnvalda sem þau hafa gengist fyrir í atvinnumálum um stundir? Fyrirspurnin hljóðar svona:

Hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera á íslensku stjórnkerfi áður en Ísland getur orðið aðili að Evrópusambandinu? Óskað er eftir upplýsingum um eftirfarandi liði:

a. hvaða stofnunum eða skipulagsheildum er nauðsynlegt að koma á fót,

b. hver er áætlaður kostnaður við þá framkvæmd,

c. hvað er áætlað að framangreindar breytingar kalli á mörg viðbótarársverk í stjórnkerfinu?