138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni Ég fór áðan yfir það fyrir hvaða lagabreytingum Alþingi þyrfti að standa í megindráttum í þessu umsóknarferli en nú spyr þingmaðurinn hvað þetta kosti í stjórnsýslunni.

Eins og við var að búast voru svör hæstv. utanríkisráðherra rýr og nánast engin því að svo virðist sem ekki sé búið að slá neinni tölu á hvað þetta kostar. Það er skrýtið því að ég veit fyrir víst innan úr Stjórnarráðinu að mikil vinna er farin af stað og má segja að ráðuneytin séu meira og minna á hvolfi vegna þessarar vinnu þessa dagana. Þau hafa því ekki tíma til að sinna þeim málum sem snúa að þjóðinni, eins og heimilunum. Það er allt á hvolfi í því og svo er Icesave notað sem skálkaskjól í því að ekkert komist áfram. Við skulum átta okkur á því að vinnan er farin á burt og mér finnst ekki við hæfi að hæstv. utanríkisráðherra geti ekki svarað þeim spurningum (Forseti hringir.) sem fyrir hann eru lagðar í þessari fyrirspurn.