138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni fyrir að varpa fram þessari brýnu spurningu sem því miður virðast ekki hafa fengist svör við hér. Hæstv. utanríkisráðherra á þó eftir eina umferð og getur þá vonandi bætt einhverju við. Þá ætla ég að leyfa mér, frú forseti, að einfalda spurninguna aðeins varðandi b-liðinn og spyrja: Hver er áætlaður kostnaður við þessa framkvæmd á þessu ári? Það hlýtur að liggja fyrir. Fólk er að vinna að þessum breytingum. Fjárlög hafa verið samþykkt. Hver er kostnaðurinn nú þegar á þessu ári sem er gert ráð fyrir að fari í þessar breytingar — sem eru á fullu? Það er verið að vinna á fullu á bak við tjöldin í því að straumlínulaga íslenska stjórnsýslu að ESB, og bæði tíma og fjármunum væri að mínu mati betur varið í eitthvert annað verkefni en það að vinna að aðild okkar Íslendinga að ESB vegna þess að þangað inn skulum við ekki fara. Það þjónar ekki hagsmunum íslenskrar þjóðar að ganga í Evrópusambandið og það skal aldrei verða.