138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:24]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er alveg rétt að dagurinn í dag markar nokkur þáttaskil í stjórnmálasögu okkar. Nú hefjast aðildarviðræðurnar formlega og þá loksins verður leitt til lykta það innihaldslitla þras sem staðið hefur árum saman um hugsanlega kosti og mögulega galla við aðild. Langstærsta einstaka hagsmunamál íslensku þjóðarinnar er það hvort og með hvaða hætti við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Um það mun þjóðin kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningsferli lýkur. Það verður lýðræðisleg ákvörðun meiri hluta þjóðarinnar.

Það hvernig hagsmunum byggða og bænda verður fyrir komið í nýjum samningi skiptir mestu máli. Ávinningurinn er augljóslega sameiginlegt myntsvæði og sameiginlegur Seðlabanki Evrópu en það sem mestu skiptir að ná út úr samningunum er sterkari staða byggða og bænda og atkvæði margra munu ráða, mitt þar á meðal, hvernig fyrir byggðunum verður komið þegar til aðildar að Evrópusambandinu kemur. (Gripið fram í: … landbúnaðarhéraði.) Sjá hvað verður í boði, eða hvað?