138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að framsóknarmenn ákváðu að fara til aðildarviðræðna með vissum skilyrðum. Eins og skýrt kemur fram í greinargerðinni var ekki farið í aðildarviðræður með nein skilyrði. Þess vegna átti aldrei að fara í þessar aðildarviðræður. Það er líka rétt að stór hópur framsóknarmanna er með og stór hópur er á móti. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun Gallups voru 75% kjósenda Framsóknarflokksins á móti aðildarumræðu en það er einnig stór hópur fylgjandi. Við höfum hins vegar ákveðið að ræða þetta mál málefnalega í okkar flokki.

Það sem mér finnst hins vegar skrýtið er að heyra nýjustu rökin fyrir því að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Evran er ekki lengur gulrótin eða lækkað matvælaverð vegna þess auðvitað er krónan að bjarga okkur og við fáum að sjálfsögðu ekki lægra matvöruverð. Núna halda þingmenn Samfylkingarinnar því fram að landið muni lokast. Hvers lags endemis vitleysa er þetta? Við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Það eina sem við tökum ekki úr Evrópusambandinu er (Forseti hringir.) landbúnaðurinn okkar og fiskveiðarnar. Evrópusambandið segir núna: Gefið þið eftir (Forseti hringir.) af auðlindum ykkar og þá skulum við koma. Ég segi einfaldlega nei. (VigH: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)