138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn tekur upp umræðu um Evrópusambandið.

Það er hátíðisdagur í dag. Framkvæmdastjórnin samþykkir að leggja til við ráðherra að við verðum teknir inn sem aðildarumsóknarsinnar og þökk sé Framsóknarflokknum fyrir að við skulum vera komin í þessa vegferð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þrír framsóknarmenn studdu þessa tillögu, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, Guðmundur Steingrímsson og Siv Friðleifsdóttir eins og hér hefur komið fram. Hafið kærar þakkir fyrir þetta. (Gripið fram í.) Þrír af sjö framsóknarmönnum sögðu já. (VigH: Þrír af níu.) Níu? Eru ekki bara sjö framsóknarmenn á þingi? (Gripið fram í.) Já, ég veit það, virðulegi forseti, ég verð að játa að þetta er svolítill galgopaháttur. Mér finnst bara svo gaman að heyra framsóknarmenn segja að þeir hafi einu sinni verið sjö og séu bara níu. (Gripið fram í.)

Svo studdu þetta líka sjálfstæðismenn, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir ætti að átta sig á því, þar á meðal varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem sat hjá og eftirlét öðrum að taka ákvörðunina. Sú sem situr í forsetastóli núna sagði já þannig að þetta er allt hið besta mál. (Gripið fram í.) Nú fara viðræður vonandi í gang (Forseti hringir.) og út úr því kemur samningur, virðulegi forseti, sem verður borinn undir þjóðina til samþykktar (Forseti hringir.) eða synjunar. Þetta er þess vegna hinn besti dagur og ég þakka hv. framsóknarþingmanni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi.