138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:32]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Sýndarmennska og hégómi eru skelfilegar systur í stjórnmálum. Allt Evrópusambandið er sýndarmennska og hégómi. Það er nútímasovét, enn verra en gamla Sovét, sem sagt flækjufæturnir eru miklu fleiri. Klíkuskapurinn er enn þá meiri og valdataflið er enn þá meira á meðal stórveldanna þar. Það var þó einkum í gamla Sovét. Þetta eru hlutir sem við eigum að horfast í augu við. Við fórum í það ferli að láta skoða þetta og skulum láta það ganga yfir og gera svo úttekt. Það er til skammar að stjórnvöld séu að laga íslenska stjórnkerfið að kerfi Evrópusambandsins þegar ekkert liggur fyrir um hreina hluti. (Gripið fram í.) (SER: Við erum búin að vera þarna í fimmtán ár.) Það er til skammar og það er valdbeiting, það er valdníðsla. (Gripið fram í.)

Það er alveg ljóst að það er ekki þingmeirihluti og ekki þjóðarvilji fyrir inngöngu í Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Samfylkingin tók Vinstri græna haustaki niður í klof og píndi þá (Forseti hringir.) til að fallast á aðildarviðræður. Engin önnur rök, (LRM: Ekki enn þá.) nei, nei, (Forseti hringir.) engin önnur rök eru í dæminu.