138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.

377. mál
[14:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þingmanns. Það sem hann er í reynd að leggja til með málflutningi sínum er að við lútum í gras fyrir fram og gefum okkur að það sem Evrópusambandið leggur á borðið verði hin endanlega niðurstaða. Við erum að fara í samningaviðræður. (Gripið fram í.) Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að slá nákvæmlega á það hver kostnaðurinn við þessar tilteknu stofnanir verður er sú að við eigum eftir að semja okkur til niðurstöðu um það. Það þýðir ekkert að benda á Svíþjóð og ekki einu sinni Króatíu varðandi það vegna þess að við höfum algera sérstöðu vegna smæðar okkar. Við þurfum í fyrsta lagi að ná samstöðu um það meðal þeirra sem munu móta þessa afstöðu fyrir okkur. Við þurfum síðan í öðru lagi að fara með þá afstöðu og semja okkur til niðurstöðu. Þá er hægt að slá á þetta.

Frú forseti. Ég þarf greinilega að undirstrika það fyrir þeim hv. þingmönnum sem hér eru að mér var falið ákveðið hlutverk af meiri hluta Alþingis. Það hlutverk var að ná sem víðtækastri sátt um öll þau atriði sem aðildina varða. Þetta er eitt af því sem tengist hvað umdeildasta málaflokknum. Ég ætla mér sannarlega að reyna það og ég ætla ekki að gefa fyrirskipanir um það með hvaða hætti við eigum að haga breytingum á stofnanastrúktúr okkar fyrir fram. Það ætla ég ekki að gera. Ég ætla að hlusta á þann hv. þingmann sem hóf þessa umræðu sem hefur verið skemmtilegur sprettur á köflum, ég ætla að hlusta á bændur, ég ætla að hlusta á ólík viðhorf og ég ætla síðan með aðstoð þeirra sem í samninganefndinni eru að reyna að semja fyrir hönd Íslands um þá niðurstöðu sem er hagfelldust fyrir Ísland. Ég vísa því algerlega á bug að þetta sé óútfylltur víxill sem við erum að samþykkja. Herra minn trúr. Það verður ekkert samþykkt, engum lögum breytt nema Alþingi samþykki það. (GBS: En kostnaðurinn?) Og það verður ekkert samþykkt nema þjóðin samþykki það að lokum. (Gripið fram í.)